HM 2011

Tvö gull og eitt brons - HM 2011

Rauðhetta frá Kommu. Knapi Erlingur Erlingsson. Mynd: GHP

04.08.2011 - 11:34
Fyrstu gull íslenska landsliðsins eru staðreynd á HM í Austurríki! Um miðjan dag í dag fór fram yfirlitssýning hryssa og héldu þær Smá frá Þúfu og Rauðhetta frá Kommu sætum sínum og standa því uppi efstar í sínum flokkum á kynbótasýningum mótsins.
 
Smá frá Þúfu hækkaði einkunn sína fyrir skeið úr 8,5 í 9 og lýkur því mótinu með hæfileikaeinkunnina 8,59 og 8,37 í lokaeinkunn.

Rauðhetta frá Kommu hækkaði skeiðeinkunn sína úr 8,5 í 9,0 og fyrir stökk hækkaði hún úr 8 í 8,5 og fyrir hægt stökk úr 8 í 8,5. Glæsileg hæfileikaeinkunn hjá Rauðhettu, 8,80 og aðaleinkunn 8,52 og er því öruggur sigurvegari í flokki 6 vetra hryssa.

Von frá Vigra er sigurvegari í elsta flokki kynbótahryssa á Heimsmeistaramótinu. Hún er sem stendur næst hæst dæmda kynbótahross mótsins með einkunina 8,68 fyrir sköpulag og 8,62 fyrir hæfileika. Í aðaleinkunn hlýtur Von því 8,64.  Fulltrúi Íslands í þessum flokki, Gjöf frá Magnússkógum hækkaði úr 8 í 8,5 fyrir tölt og skeið og hækkaði þar með hæfileikaeinkunn sína í  8,45 og lýkur þátttöku á mótinu með 8,36 í aðaleinkunn og þar með þriðja sæti flokksins.

 

frett lhhestar.is