Heimsmeistaramót íslenska hestsins verður í fyrsta skiptið haldið í stórborg árið 2013:

Íslenski hesturinn í miðborg Berlínar

07.11.2011 - 06:52
Heimsmeistaramót íslenska hestsins árið 2013 verður haldið í Berlín og er þetta í fyrsta sinn sem mótið er haldið í miðri stórborg. Rúnar Þór Guðbrandsson, tengiliður undirbúningsnefndar á Íslandi, segir mikinn áhuga fyrir mótinu.
 „Bæði eru það tíðindi að keppnin verður í Þýskalandi, sem er langstærsti markaðurinn fyrir íslenska hestinn, og þar að auki í miðri höfuðborg landsins.
 
Þjóðverjar líta margir hverjir á hestinn sem fánabera Íslands og við sjáum þarna tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem hafa einhverja tengingu við Þýskaland að kynna vörur sínar á mótinu á stóru sýningarsvæði,“ segir Rúnar.
 
Í dag klukkan 14 munu fimm fulltrúar heimsmeistaramótsins í Berlín halda fund í samvinnu við Íslandsstofu í Borgartúni 35 þar sem sýningar- og sölusvæðið verður sérstaklega kynnt fyrirtækjum. „Þessi viðburður nýtist ekki bara fyrirtækjum í hestatengdri þjónustu, heldur einnig þeim sem eru í ferðaþjónustu, fjármálafyrirtækjum, handverki, hönnun, flugfélögum og hvaðeina.
 
Þá er Íslandsstofa að vinna að því að skálinn sem notaður var á Heimssýningunni í Kína og á Bókamessunni í Frankfurt, verði settur upp í Berlín.“
 
Fréttablaðið