Íslenski hesturinn á toppnum

Bergljót Rist er eigandi leigunnar ásamt manni sínum. Fréttablaðið/gva

25.01.2012 - 11:11
Hestaleigan Íslenski hesturinn er í þriðja sæti ferðavefsíðunnar Tripadvisor yfir hluti sem mælt er með að gera í allri Evrópu. Leigan er eina hestaleigan í Reykjavík og er þjónustan lofuð í hástert af fyrrum viðskiptavinum.
 
Hestaleigan er í þriðja sæti yfir afþreyingu sem mælt er með í allri Evrópu og kemur næst á eftir ítölskum matardögum og svifflugi í Sviss. Þetta telst einstakur árangur fyrir íslenskt afþreyingafyrirtæki, en alls eru um 46.224 fyrirtæki á listanum.

Hjónin Bergljót Rist og Sveinn Atli Gunnarsson eru eigendur Íslenska hestsins og að vonum ánægð með þau stórkostlegu meðmæli sem fyrirtækið hefur fengið. „Þetta er ofsalega gaman og á svo margan hátt gleðiefni. Þetta er gott fyrir fyrirtækið, íslenska hestinn almennt og auðvitað íslenska ferðamennsku," segir Bergljót sem er menntaður leiðsögumaður og talar ein sjö tungumál.

„Þetta hefur einnig skilað fleiri bókunum til okkar. Nú sér fólk þetta sem eitt af því sem þarf að prófa þegar Ísland er heimsótt sem er frábært, enda Ísland land hestsins."
Íslenski hesturinn býður upp á útreiðartúra um Rauðhóla og Hólmsheiði. Leigan fær fullt hús stiga eftir umsagnir viðskiptavina sem segja þjónustuna meðal annars „frábæra og einstaka", „tryggja bros á hvert andlit" og „persónulega og mæta öllum kröfum". -sm
 
Fréttablaðið