Stórglæsilegt ístöltsmót kvenna

-Úrslit af Svellköldum

18.03.2012 - 16:40
Hið stórskemmtilega mót „Svellkaldar konur“ fór fram í gærkvöldi þar sem 100 konur tóku þátt í ístöltskeppni í Laugardalnum í Reykjavík. Hestakostur var gríðarlega góður og áberandi hversu reiðmennska og snyrtimennska var í háum gæðaflokki.
 
Þema mótsins var „hálstau“ og var gaman að sjá að nánast allir keppendur mættu með falleg eða frumleg hálstau og sumar skreyttu jafnvel hrossin líka. Keppnin var einna hörðust í flokknum Meira keppnisvanar þar sem aðeins 0,06 skildi að 1. og 2. sætið, en sigurinn í hinum tveimur flokkunum var nokkuð öruggur frá byrjun.

Verðlaunahafar fóru hlaðnir gjöfum heim, en sigurvegararnir fengu m.a. folatolla undir topphestana Arion frá Eystra-Fróðholti sem fjölskyldan í E-Fróðholti gaf, Sólon frá Skáney sem fjölskyldan í Skáney gaf og Álffinn frá Syðri-Gegnishólum sem Bergur og Olil hjá Gangmyllunni gáfu. Einnig hömpuðu sigurvegararnir ísfjöðrinni glæsilegu frá Mustad, eignarbikurum og gjafapokum frá Líflandi og O.Johnson og Kaaber. Silfurverðlaunahafarnir fengu svo miða á landsmót í boði Landsmóts og allir verðlaunahafar á mótinu fengu veglega eignargripi og ýmis flott aukaverðlaun.

Sigurbjörn Bárðarson og fjölskylda í Oddhóli gáfu folatöll undir Þröst frá Hólum og var dregið úr nöfnum allra keppenda um þann toll. Sú heppna var Aníta Lára Ólafsdóttir og tók hún við gjafabréfi þegar hún mætti til úrslita í flokkum minna vanar.

Dómarar völdu svo glæsilegasta parið á mótinu og þar var sérstaklega litið til snyrtimennsku, fallegrar og góðrar reiðmennsku, samspils knapa og hests og heildarmyndar. Þessi verðlaun hlutu þær Torunn Hjelvik og Ófelía frá Holtsmúla 1 og fór Torunn heim með veglegan vinning frá Lyfju og Tískuhúsinu Basic.

Mótið tókst afskaplega vel og er rétt að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg. Allir starfsmenn, undirbúningsnefnd og dómarar gáfu vinnu sína, en allur ágóði af mótinu rennur til íslenska landsliðsins í hestaíþróttum. Fjölmargir styrktaraðilar komu að mótinu og er þeim þakkað sérstaklega. Listi yfir styrktaraðila verður birtur á heimasíðu LH og á FB síðu Svellkaldra.

Semsagt, ánægjuleg kvöldstund í Skautahöllinni þar sem glæsilegar konur fóru á kostum á gæðingum sínum. Úrslitin voru eftirfarandi í A og B úrslitum, en úrslit úr forkeppni verða birt á heimasíðu LH.
 
Minna keppnisvanar:
1. Gríma Huld Blængsdóttir og Þytur frá Syðra-Fjalli I 6,92
2.-4. Hrefna Hallgrímsdóttir og Penni frá Sólheimum 6,25 (6,25 í B-úrsl.)
2.-4. Aníta Lára Ólafsdóttir og Ástrós frá Hörgslandi 6,25
2.-4. Stella Björg Kristinsdóttir og Skeggi frá Munaðarnesi 6,25
5. Andrea Guðlaugsdóttir og Kátína frá Grímsstöðum 6,08
6. Verena Christina Schwarz og Hjaltalín frá Reykjavík 5,58
7. Bianca E. Treffer og Sóley frá Blönduósi  6,17
8. Tinna Rut Jónsdóttir og Hemla frá Strönd I  5,83
9. Christiane Grossklaus og Haukur frá Syðri-Gróf I  5,50
10. Sólveig Lilja Ómarsdóttir og Perla frá Hólabaki 5,08
 
Meira vanar:
1.Elsa Hreggviðsdóttir Mandal og Grýta frá Garðabæ  8,06
2. Julia Lindmark og Lómur frá Langholti  8,00
3. Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Rós frá Geirmundarstöðum  7,11
4. Eygló Breiðfjörð Einarsdóttir og Ýmir frá Ármúla 7,06
5. Jessica Dahlgren og Þruma frá Þorlákshöfn 6.83
6. Rósa Valdimarsdóttir og Dís frá Jaðri 6,78 (6,83 í B-úrsl.)
7. Ellen María Gunnarsdóttir og Lyfting frá Djúpadal 6,67
8. Erla Katrín Jónsdóttir og Flipi frá Litlu-Sandvík 6,67
9. María Gyða Pétursdóttir og Rauður frá S-Löngumýri 6,44
10. Brynja Viðarsdóttir og Kolbakur frá Hólshúsum 6,39
 
Opinn flokkur:
1. Hulda Gústafsdóttir og Smyrill frá Hrísum 8,44
2. Sylvía Sigurbjörnsdóttir og Fura frá Enni 8,00
3. Torunn Hjelvik og Ófelía frá Holtsmúla I  7,89
4. Lena Zielinski og Njála frá Velli II 7,50
5. Sara Ástþórsdóttir og Sóllilja frá Álfhólum  7,17
6. Birgitta Dröfn Kristinsdóttir og Gerður frá Laugabökkum  6,83 (7,06 í B-úrsl.)
7. Berglind Rósa Guðmundsdóttir  og Hrefna frá Dallandi  6,83
8. Svanhvít Kristjánsdóttir  og Glódís frá Halakoti  6,78
9. Edda Rún Guðmundsdóttir og Gljúfri frá Bergi  6,56
10. Friðdóra Friðriksdóttir og Jór frá Selfossi 6,28