Skeiðmót á laugardag í Meistaradeildinni

Haldið í Ármóti

20.03.2012 - 15:14
Næsta laugardag fer fram Skeiðmót Meistaradeildar í hestaíþróttum en þá verður keppt í 150m skeiði og gæðingaskeiði. Mótið fer fram að Ármóti og verður mikið um dýrðir þar á laugardaginn.
 
Keppni í fljúgandi skeiði á síðasta móti var æsispennandi og náðust feikna góðir tímar þar og má því gera ráð fyrir æsispennandi keppni á laugardaginn. Í fyrra sigraði Sigursteinn Sumarliðason, Spónn.is, 150m skeiðið á Arnari frá Blesastöðum 2A og Viðar Ingólfsson, Hrímnir, sigraði gæðingaskeiðið á Má frá Feti. Gaman verður að sjá hvort þessir kappar mæta aftur með sömu hesta að verja titlana. En keppendur eru að leggja lokahönd á val sitt á hestum fyrir helgina og verða ráslistar og dagskrá birt á morgun.

Staðan í stigakeppninni er æsispennandi og er allt galopið enn bæði í
einstaklings- og liðakeppninni. 36 stig eru enn í pottinum fyrir sigur og verður spennandi að sjá hverjir verða á toppnum eftir laugardaginn. En gera má ráð fyrir harðri baráttu á lokamótinu sem fram fer í Ölfushöllinni föstudaginn 30. mars en þá verður keppt í fimmgangi.