Lokamót Meistaradeildar

27.03.2012 - 18:44
Á föstudaginn klukkan 19:00 fer fram lokamót Meistaradeildar í hestaíþróttum, í Ölfushöllinni, Ingólfshvoli, en þá verður keppt í fimmgangi.

Í fyrra sigraði Hinrik Bragason, Árbakki / Norður-Götur, fimmganginn á Glym frá Flekkudal og verður gaman að sjá hvaða hrossi Hinrik teflir fram á föstudaginn en keppendur eru í óða önn að leggja lokahönd á val sitt á hestum fyrir kvöldið og verða ráslistar væntanlega birtir á morgun.

Stigakeppni einstaklinga er æsispennandi og eru fjórir keppendur sem eiga möguleika á sigri allt eftir því hvernig leikar fara á föstudaginn. En tólf stig eru í pottinum fyrir sigur. Þau Artemisia Bertus, Hrímnir, og Jakob S Sigurðsson, Top Reiter/Ármót, eru jöfn í efsta sæti með 41 stig.
Komi til þess að þau verði jöfn í efsta sæti þá er árangurinn í vetur skoðaður og þar er Artemisia með tvö gull á Jakob.

Sara Ástþórsdóttir, Ganghestar/Málning, og Sigurbjörn Bárðarson, Lýsi, eiga einnig möguleika á sigrinum en þá þurfa þau að tryggja sér sæti ofarlega í A-úrslitum og Artemisia og Jakob mættu ekki fara lengra en í B-úrslit og ekki standa ofarlega þar. Sigurður Sigurðarson, Lýsi, sem sigraði deildina í fyrra er með 29 stig í fimmta sæti og myndi sigur í fimmgangi ekki duga honum til sigurs í deildinni þrátt fyrir að Artemisia og Jakob fengju ekki stig því eins og áður sagði er Artemisia með tvo sigra en Sigurður yrði bara með einn.

Liðakeppnin er einnig æsispennandi og eru í raun þrjú lið sem eiga möguleika á sigri þó lið Top Reiter / Ármóta sé líklegast til að sigra en þeir eru efstir með 280,5 stig. En lið Lýsis, sigurvegarar liðakeppninnar 2011, er í öðru sæti með 262 stig og lið Hrímnis á hæla þeirra með 260 stig.

Aðgangseyrir á mótið er 1.500 krónur fyrir þá sem eru ekki með ársmiða og er forsala aðgöngumiða í fullum gangi í verslunum Líflands, Top Reiter og Baldvini og Þorvaldi á Selfossi. Eins og áður sagði hefst mótið klukkan
19:00 og er um að gera að mæta snemma, tryggja sér sæti og fá sér eitthvað gott í gogginn hjá Lindu og Helga í veitingasölunni.

www.meistaradeild.is