Stóðhestar styðja flogaveika

03.04.2012 - 16:35
„Við hjá LAUF erum ákaflega ánægð með að vera komin í samstarf við Hrossarækt.is og geta með því vakið athygli á sjúkdómnum flogaveiki og því sem honum fylgir,“ segir Brynhildur Arthúrsdóttir, formaður LAUF, landssamtaka áhugafólks um flogaveiki.
 
LAUF og Hrossarækt.is, sem gefa árlega út bókina „Stóðhestar“, hafa tekið höndum saman og rennur ágóði af uppboði á folatollum undir á annað hundrað stóðhesta óskiptur til LAUF. Uppboðið fer fram næstkomandi laugardag á árlegri stóðhestasýningu í Ölfushöllinni. Forsala á sýninguna er hafin og má m.a. nálgast miða hjá N1 í Ártúnshöfða, Hveragerði, Selfossi og á Hvolsvelli.

Auk ágóðans af uppboðinu rennur allur ágóði af stóðhestahappdrætti, sem dregið verður úr í maí, til samtakanna. Á listanum yfir happdrættisvinninga má m.a. finna folatolla undir stóðhestana Spuna frá Vesturkoti, Fróða frá Staðartungu, Arion frá Eystra-Fróðholti og Álf frá Selfossi. Þá er einn happdrættisvinningurinn Löngufjöruferð fyrir tvo með Ólafi Flosasyni.

Stofnaður verður sjóður hjá LAUF sem „mun hafa það hlutverk að styrkja flogaveik börn og unglinga til íþróttaiðkunar og þátttöku í tómstundastarfi. Einnig mun sjóðurinn nýtast til þess að kynna flogaveiki og þannig efla vitund þjóðarinnar um sjúkdóminn. Nauðsynlegt er að sem flestir hafi einhverja þekkingu á þessum sjúkdómi“, að því er fram kemur á heimasíðu Hrossaræktar.
Hugmyndin kom eftir fyrsta hestaíþróttamót fatlaðra

Hugmyndin að samstarfinu kom til í kjölfar fyrsta hestamótsins sem haldið hefur verið fyrir fatlaða á Íslandi. Mót þetta var haldið síðastliðið vor í framhaldi af námskeiði sem hestamannafélagið Hörður í Mosfellsbæ hélt. Sigurvegari mótsins, og þar með fyrsti sigurvegari í hestaíþróttum fatlaðra, var Kristín Hrefna Halldórsdóttir sem er flogaveik og félagsmaður í félaginu LAUF.

„Öllum börnum og unglingum er mikilvægt að stunda íþróttir sér til dægrastyttingar og heilsueflingar. Því erum við hjá LAUF ákaflega þakklát hrossaræktendum, sem og hestamönnum í landinu, fyrir þeirra stuðning. Stuðningur hrossaræktenda og hestamanna í gegnum Hrossarækt.is á síðasta ári vakti verðskuldaða athygli, enda umtalsverður, og því horfum við bjartsýn fram á veginn vegna þess styrks sem við eigum í vændum frá hestamönnun í landinu,“ segir Brynhildur.
 
frétt MBL.is