Bjarni sigraði í KS deildinni

05.04.2012 - 09:56
Bjarni Jónasson sigraði í heildarstigakeppni Meistaradeildar Norðurlands, KS-deildinni, en lokamótið fór fram í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki í gær kvöld. Lokakvöldið var æsispennandi og tolleruðu hinir knaparnir Bjarna þegar úrslit voru kynnt.
 
Bjarni var efstur fyrir lokamótið, með einu stigi meira en hans helsti keppinautur, Sölvi Sigurðarson. Mette Manseth var þriðja fyrir mótið og sótti á þá.

Sölvi varð einu sæti ofar en Bjarni í fyrri keppnisgreininni í kvöld, slaktaumatölti, þannig að keppni þeirra var hnífjöfn fyrir skeiðið. Þar náði Bjarni þriðja besta tímanum en Sölvi varð fimmti.

Tryggvi Björnsson og Gulltoppur frá Þjóðólfshaga sigruðu í slaktaumatöltinu, Þórarinn Eymundsson og Taktur frá Varmalæk urðu í öðru sæti ásamt Mette Manseth og Stjörnustæl frá Dalvík.

Mette sigraði í skeiði á Þúsöld frá Hólum og tryggði sér með því þriðja sætið í heildarstigakeppninni. Þórarinn og Bragur frá Bjarnastöðum urðu í öðru sæti í skeiðinu og Bjarni Jónasson og Hrappur frá Sauðárkróki í því þriðja.
 
mbl.is