Folald ársins veit ekki hvort það er hundur eða maður

25.10.2016 - 07:39
 Folaldið Von á sér einstaka sögu því það veit ekki hvort það er hundur eða maður. Von fannst í vor móðurlaus en bjargaði sér með því að sjúga mjólkurkýr. Þá er litur Vonar mjög sérstakur því hún er hjálmskjótt og glaseyg með alhvítt höfuð.
 
 
Von er folald ársins 2016 og býr á Ártúni í Rangarárvallasýslu. Bændablaðið, í samvinnu við litasérfræðing búfjár, Pál Imsland, valdi Von folald ársins. Saga hennar er mjög sérstök.
 
„Við fundum hana illa til hafða í kringum 20. maí. Þá hafði hún flækkst frá móðir sinni. Við tókum hana heim en vissum ekki hvað við ættum að gera. Mér datt í hug að láta hana sjúga kú í fjósinu og það gekk strax upp. Hún stendur sig mjög vel en veit ekki alveg hvort hún er maður eða hundur, allavega ekki hross,“ segir Halla Bjarnadóttir, bóndi á Ártúni.
 
„Hún hefur lítil sem engin samskipti við önnur hross og líður best með hundinum og okkur. Henni finnst heimasætan skemmtileg,“ segir Halla.
 
En af hverju vill Von ekki lifa lífi hestsins og vera innan um hrossin á bænum?
 
„Hugsanlega vegna þess að ég fékk hana undir fósturmóður og hún var vond við hana. Hún beit hana og vildi hana ekki. Það er hugsanlega ástæðan fyrir því að hún er hrædd við önnur hross.“
 
Eitt folald í Ártúni gengur undir tveimur merum, önnur þeirra er líklega mamma Vonar en Halla segir að þær munu ekki ná saman úr þessu.
 
Frétt / visis.is