Suðurlandsdeildin: Lið IceWear

11.01.2018 - 12:18
 Fyrsta liðið sem við kynnum til leiks af tólf í Suðurlandsdeildinni 2018 er lið IceWear. Liðsstjórinn: Vilborg Smáradóttir er fædd og uppalin í Vík í Mýrdal og býr þar enn. 
 
Hún er skrifstofustjóri E.Guðmundsson ehf sem rekur Icelandair Hotel Vík, Hótel Eddu í Vík, Víkurskála og Ströndina restaurant. Í hliðarverkum rekur hún svo hestaleigu ásamt vinafólki sínu. Vilborg hefur látið að sér kveða á keppnisbrautinni síðastliðin 3 ár eftir að hún skipti út hrossum fyrir „alvöru“ hross og hefur gengið vel á þeirri braut og á nokkra góða titla í farteskinu.  
 
Kristín Lárusdóttir er fædd og uppalin á Kirkjubæjarklaustri, hún er búsett að Syðri-Fljótum þar sem hún rekur tamningastöð ásamt manni sínum, Guðbrandi.  Kristín er útskrifaður tamningarmaður og reiðkennari frá Bændaskólanum að Hólum og hefur unnið við tamningar alla tíð. Eins og flestir vita hefur Kristín verið að gera það mjög gott í keppnum á undanförnum árum og telst heimsmeistaratitillinn í tölti tvímælalaust til hápunkts afreka hennar það sem af er keppnisferilsins.
 
Hlynur Guðmundsson er Eyfellingur sem ólst upp að stórum hluta að Skógum undir Eyjafjöllum. Hann er nú fluttur í Mýrdalinn þar sem hann rekur tamingarstöð í Nykhól undir Pétursey. Hlynur er búfræðingur frá bændaskólanum á Hvanneyri og einnig nýlega útskrifaður tamningarmaður og reiðkennari frá Háskólanum að Hólum þar sem hann hlaut viðurkenningu FT fyrir bestan árangur á lokaprófi í reiðmennsku. Hann hefur alla tíð unnið við landbúnaðarstörf, þjálfun og tamningar. Hlynur hefur verið ötull við keppni og hefur gengið vel á keppnisbrautinni jafnt sem á gæðinga-, íþrótta- og kynbótabrautinni.
 
Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir er fædd og uppalin á Hornafirði en hestamennska hefur átt hug hennar allan alla tíð og hefur hún stundað hana af kappi og látið að sér kveða á keppnisbrautinni. Hún er nýútskrifuð tamningarmaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Framtíðin liggur öll í hrossum, þjálfun og tamningu en hún er búsett í Nykhól ásamt kærasta sínum Hlyn þar sem þau reka tamningastöð.
 
Guðbrandur Magnússon er fæddur Borgfirðingur en eftir að hann kynntist konu sinni Kristínu fluttist hann með henni austur að Syðri-Fljótum þar sem þau búa og reka tamingarstöð saman. Brandur eins og hann er kallaður hefur að mestum parti unnið við tamningar og þjálfun hrossa. Hann hefur lítið tekið þátt í keppnum hingað til en er nú farinn að láta að sér kveða á keppnisbrautinni og lofar það góðu.
 
Hjördís Rut Jónsdóttir er fæddur og uppalinn Mýrdælingur og býr ásamt manni sínum að Suður-Fossi þar sem þau reka blandað bú og ísgerð. Hjördís er leikskólakennari að mennt og hefur sinnt því starfi stærri hluta æfi sinnar þar til í fyrra að hún söðlaði um og rekur nú hestaleigu ásamt eiginmanni sínum og vinkonu. Hjördís er byrjandi á keppnisbrautinni en hefur þrátt fyrir það unnið sæta sigra s.s. í V5 á Áhugamannamóti Íslands og byrjendaflokk á Kvennatölti Spretts. Hún hlaut einnig þann heiður á Áhugamannamóti Íslands 2015 að vera sæmd reiðmennskuverðlaunum FT.
 
Icewear er tæplega hálfrar aldar gamalt framleiðslufyrirtæki sem framleiðir vandaðan útivistarfatnað og íslenskar ullarvörur. Fyrirtækið er að auki stórt á ferðamannamarkaðinum og selur minjavörur í stórum stíl. 
 
--
 
Fyrsta mót Suðurlandsdeildarinnar fer fram 6. febrúar í Rangárhöllinni á Hellu. Keppt verður í fjórgang og hefst mótið kl. 18:00.
 
Suðurlandsdeildin fór af stað á síðasta ári við virkilega góðan orðstír en sérstaða deildarinnar er sú að atvinnumenn og áhugamenn keppa saman og mynda lið. Engin einstaklingskeppni fer fram. Deildin er samstarfsverkefni Hestamannafélagsins Geysis og Rangárhallarinnar. Liðin verða áfram 12 en knöpum fjölgar um einn í flestum liðum, bætt er við einum atvinnumanni. Mótin verða áfram fjögur og eru dagsetningar eftirfarandi.
 
6. febrúar - fjórgangur
20. febrúar - tölt
6. mars - parafimi
20. mars - fimmgangur
 
Sjáumst í Rangárhöllinni í vetur!