Suðurlandsdeildin: Lið Bakkakots/Kolsholts/Álfhóla

23.01.2018 - 07:57
 Tíunda liðið sem við kynnum til leiks í Suðurlandsdeildinni 2018 er lið Bakkakots/Kolsholts/Álfhóla.
 
Leó Geir Arnarson er reynsluboltinn í liðinu en hann hefur komið mikið fyrir bæði á kynbótabrautinni og í keppni með góðum árangri. Leó starfaði lengst af við tamningar og þjálfun á Kanastöðum í A-Landeyjum.
 
Sara Ástþórsdóttir er fædd og uppalin á Álfhólum þar sem hún rekur hrossaræktarbú, og er með sauðfjárrækt að áhugamáli, milli þess sem hún sinnir móðurhlutverkinu.  Sara er útskrifaður reiðkennari og tamningamaður frá Háskólanum á Hólum.
 
Helgi Þór Guðjónsson er fæddur og uppalinn í Kolsholti 2 í Flóahrepp. Hann er útskrifaður tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Helgi rekur tamningastöð í Kolsholti 2 og hann hefur alla tíð verið duglegur að koma fram jafnt á keppnisbrautinni sem kynbótabrautinni með góðum árangri.
 
Róbert Bergmann hefur verið farsæll í yngri flokkunum í gegn um árin en hann hefur m.a. hampað Íslandsmeistaratitli í tölti fimm sinnum. Robbi starfar við tamningar og þjálfun í Bakkakoti á Rangárvöllum. 
 
Þorgils Kári Sigurðsson hefur stundað hestamennsku frá blautu barnsbeini. Hann kemur frá Kolsholti í Flóahrepp þar sem hann starfar við tamningar og þjálfun. 
 
Þorgeir Ólafsson er fæddur og uppalinn í Borgarnesi. Hann hefur stundað hestamennsku frá unga aldri og á góðan árangur að baki í yngri flokkum. Þorgeir starfar við tamningar og þjálfun á Fákshólum í Ásahrepp. 
 
Hlökkum til að byrja! 
 
--
 
Fyrsta mót Suðurlandsdeildarinnar fer fram 6. febrúar í Rangárhöllinni á Hellu. Keppt verður í fjórgang og hefst mótið kl. 18:00.
 
Suðurlandsdeildin fór af stað á síðasta ári við virkilega góðan orðstír en sérstaða deildarinnar er sú að atvinnumenn og áhugamenn keppa saman og mynda lið. Engin einstaklingskeppni fer fram. Deildin er samstarfsverkefni Hestamannafélagsins Geysis og Rangárhallarinnar. Liðin verða áfram 12 en knöpum fjölgar um einn í flestum liðum, bætt er við einum atvinnumanni. 
 
Mótin verða áfram fjögur og eru dagsetningar eftirfarandi:
6. febrúar – fjórgangur
20. febrúar – tölt
6. mars – parafimi
20. mars – fimmgangur
 
Hér má finna allar nánari upplýsingar -https://www.facebook.com/events/1567726689929388/
 
Sjáumst í Rangárhöllinni í vetur!