Heimsmettími í 250m skeiði

07.07.2018 - 22:37
 Fulltrúar FEIF, alþjóðlegra samtaka íslenska hestsins, sem staddir eru á Landsmóti staðfestu í dag að tími Konráðs Vals Sveinssonar og Kjarks frá Árbæjarhjáleigu II í 250 metra skeiðinu í gær, 21.15 sekúndur, er nýtt heimsmet!
 
Keppnin í 250m skeiði í gær var gríðarlega spennandi því alls var farið sex sinnum undir gildandi heimsmet, 21.41 sek., sem Bjarni Bjarnason og Hera frá Þóroddsstöðum settu á Hólum á Landsmóti 2016. 
 
Alls fóru fjórir knapar undir tíma Bjarna og Heru í keppninni í gær. Árni Björn Pálsson og Dalvar frá Horni 1 fóru sprettinn á 21.30 sek., Guðmundur Björgvinsson á Glúmi frá Þóroddsstöðum fékk tímann 21.29 sek. og Sigurbjörn Bárðarson á Vökuli frá Tunguhálsi 2 fór sprettinn tvisvar undir heimsmetstímanum, fyrri sprettinn á 21.16 sek. og þann seinni á 21.25 sek. Konráð Valur Sveinsson á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu 2 fór sprettinn einnig í tvígang undir heimsmetstímanum, þann fyrri á 21.33 sek. og þann seinni á 21.15 sek. sem tryggði honum sigur í 250m skeiðinu – og hefur nú verið staðfest nýtt heimsmet í greininni eftir að gengið hefur verið úr skugga um að allar aðstæður á vellinum hafi verið í lagi sem og öll önnur skilyrði.
 
Skýringin á þessari einstöku uppákomu í gær eru að sögn sérfræðinga þær helstar að fyrir utan frábæran hestakost fóru þar saman mjög hagstæð vallar- og veðurskilyrði. Vindur í bakið en innan leyfilegra marka sem gaf knöpunum byr í seglin auk þess sem fjöðrun í brautinni var einstaklega góð, í kjölfar mikillar vætutíðar undanfarið sem hafi einnig hjálpað til og örvað hestana og gert þá skrefléttari.
 
frétt/mynd/landsmot.is