Liðakynning

Meistaradeild KS í hestaíþróttum

13.01.2020 - 16:07
Meistaradeild KS í hestaíþróttum hefst 5.febrúar 2020. Þar munu átta lið og 40 knapar etja kappi saman.

Fyrsta liðið sem við kynnum í deildina í ár er lið Equinics en liðið er nýtt í deildinni.

Artemisia Bertus, liðsstjóri er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og starfar við reiðkennslu og þjálfun hrossa á Nautabúi í Hjaltadal. Hún hefur náð góðum árangri á keppnisvellinum en sem dæmi má nefna stóð hún efst í fjórgangi á Íslandsmóti 2017 með Korg frá Ingólfshvoli og sama ár riðu þau til úrslita í fjórgangi á Heimsmeistaramótinu í Hollandi. Einnig sigraði hún Meistaradeildina í hestaíþróttum veturinn 2012 og er fyrsta og eina konan sem hefur afrekað það enn sem komið er.

Fanndís Viðarsdóttir útskrifaðist frá Háskólanum á Hólum vorið 2017. Hún starfar við þjálfun og tamningu hrossa á Björgum í Hörgárdal. Fanndís hefur gert það gott á keppnisvellinum en meðal annars sigraði hún ungmennaflokk á Fjórðungsmóti Austurlands 2015 á Væntingu frá Hrafnagili.

Ástríður Magnúsdóttir stundar nám við Háskólann á Hólum. Hún sýndi meðal annars hestinn sinn Þin frá Enni í góðan dóm í vor þar sem hann hlaut 9,0 fyrir tölt og brokk og 9,5 fyrir stökk en í liðinu er einnig hennar betri helmingur Hannes Brynjar Sigurgeirsson frá Varmalandi í Sæmundarhlíð. Hannes hefur tamið og þjálfað mörg hross sem hafa gert það gott í keppni og kynbótavellinum svo sem Kviku frá Varmalandi (8,44 hæfileikar) og Gígju frá Sauðárkróki. Nú ætlar hann að dusta rykið af keppnisjakkanum og mæta sjálfur í braut.

Hörður Óli Sæmundarson útskrifaðist sem reiðkennari frá Háskólanum á Hólum vorið 2013. Hann stundar tamningar og þjálfun hrossa á Gröf í Húnavatnssýslu og hefur verið ötull á keppnisvellinum sem og kynbótabrautinni en sem dæmi má nefna reið hann Eldi frá Bjarghúsum í 8,84 í B-flokki síðasta sumar.
 
frétt/facebooksíða deildarinnar