Lið Syðra-Skörðugils í KS Deildinni

20.01.2020 - 09:30
Næsta lið sem við kynnum til leiks í Meistaradeild KS er lið Syðra-Skörðugils / Weierholz.

Elvar Eylert Einarsson, liðsstjóri er útskrifaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hann býr á Syðra-Skörðugili í Skagafirði rekur þar sauðfjárræktar, hrossaræktar- og ferðaþjónustubú ásamt fjölskyldu sinni.
 
Elvar hefur stundað hestamennsku frá unga aldri og hefur verið áberandi á keppnisbrautinni og þá sérstaklega skeiðbrautinni. Elvar var íslandsmeistari í 250m skeiði árið 2011 og um leið setti heimsmet þegar hann og Kóngur hlupu á tímanm 21,89 sek. Þeir félagar hlutu svo annað sæti í 100m skeiði á Heimsmeistaramóti sama ár. Elvar sigraði skeiðið í Meistaradeild KS árið 2015.

Arndís Björk Brynjólfsdóttir er útskrifaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún starfar sem yfirreiðkennari á hestabraut FNV ásamt því að þjálfa og rækta hross frá Vatnsleysu. Arndís hefur gert góða hluti á keppnisvellinum með ýmis hross en þá má helst nefna gæðinginn hennar Hraunar frá Vatnsleysu.

Bjarni Jónasson starfar við þjálfun hrossa á Narfastöðum. Einnig starfar hann við reiðkennslu á búðgarðinum Weierholz í Sviss. Árið 2014 hlaut Bjarni FT fjöðrina fyrir framúrskarandi reiðmennsku í Meistaradeild KS eftir sýningu á Roða frá Garði. Bjarni hefur verið framarlega á keppnisvellinum sem og kynbótavellinum. Meðal annars sýndi hann Viðju frá Hvolsvelli í hæstu hæfileikaeinkunn síðasta árs (9,0). Bjarni sigraði tölt í Meistaradeild KS fimm ár í röð á Randalín frá Efri - Rauðalæk og hefur tvisvar sinnum sigrað einstaklingskeppnina. Hann var íslandsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum árið 2009 & sigraði B-flokk á fjórðungsmóti sama ár. Bjarni var valinn kynbótaknapi ársins 2010 og kynbótaknapi Skagafjarðar 2017 og 2018.

Vignir Sigurðssson starfar við þjálfun, tamningu og ræktun hrossa á Litlu-Brekku. Vignir hefur verið ötull á keppnis - og kynbótavellinum. Hann hefur ræktað marga gæðinga en meðal annars Spóa frá Litlu-Brekku, Pistil frá Litlu-Brekku heimsmeistara og Rosa frá Litlu - Brekku. Allir þessir hestar kepptu á Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi síðasta sumar.

Viktoría Eik Elvarsdóttir er nemi við Háskólann á Hólum og kemur frá Syðra-Skörðugili. Viktoría reið A-úrslit á Landsmóti hestmanna árið 2014 og 2018. Viktoría hefur riðið til úrslita á Íslandsmótum m.a. árið 2018 og 2019. Hún keppti fyrir hönd Íslands á Norðurlandamóti árið 2018 þar sem hún var í þriðja sæti í ungmennaflokki í slaktaumatölti. Viktoría var knapi ársins í ungmennaflokki hjá Skagfirðingi árið 2018. Einnig var hún í landsliðshópi U21 í sumar.

frétt facebooksíða deildarinnar