Lið Leiknis - Hestakerrur í KS Deildinni

22.01.2020 - 09:49
Fimmta liðið sem kynnt er til leiks í Meistaradeild KS er Leiknisliðið - Hestakerrur þar sem einungis karlmenn er í hópnum og ætla þeir sér að gera góða hluti í vetur.

Konráð Valur Sveinsson, liðsstjóri er nemandi við Hólaskóla. Konni er er margfaldur Íslands- og heimsmeistari í skeiðgreinum. Hann varð heimsmeistari í 250 m. skeiði og 100m. skeiði í Berlín árið 2013, heimsmeistari í gæðingaskeiði árið 2017 og í 100m skeiði árið 2019. Hann er ríkjandi Íslandsmeistari í 250m. og 100m. skeiði á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu en þeir sigruðu líka þessar greinar 2018. Einnig sigraði hann 100m skeiðið á Landsmóti 2016 og 2018 sem og 250m skeiðið. Konráð Valur var valin skeiðknapi ársins 2018 og 2019.

Agnar Þór Magnússon stundar hrossarækt og tamningu á Garðshorni á Þelamörk. Agnar hefur sýnt marga gæðinga bæði úr sinni ræktun og ekki. Sem dæmi má nefna landsmótssigurvegarann Konsert frá Hofi árið 2014 og landsmótssigurvegarann 4v Sirkus frá Garðshorni á Þelamörk árið 2016. Nú síðastliðið sumar sló í gegn efsti 4v stóðhestur ársins Leynir frá Garðshorni á Þelamörk sem sýndur var af Agnari og úr eigin ræktun.

Finnbogi Bjarnason er þriðja árs nemi við Háskólann á Hólum. Hann hefur verið ötull á keppnisvellinum frá unga aldri en meðal annars var hann Íslandsmeistari í tölti ungmenna á Randalín frá Efri-Rauðalæk og riðu þau til úrslita saman í tölti á Heimsmeistaramótinu í Hollandi 2017 þar sem þau kepptu fyrir Íslands hönd. Auk þess hefur hann riðið til fjölmargra úrslita á Íslandsmóti yngri flokka, var valinn knapi ársins í ungmennaflokki hjá Skagfirðing 2015 & 2017 og tilnefndur til knapa ársins í ungmennaflokki 2017.

Jóhann B. Magnússon hefur lengi gengið braut mennta og æfinga í faginu. Hann stundar hrossarækt og tamningar á Bessastöðum í Húnaþingi vestra. Jói hefur gert góða hluti á keppnisvellinum en meðal annars á skeiðbrautinni með hryssuna Fröken frá Bessastöðum. Síðastliðið sumar hlutu þau þriðja sæti á Íslandsmóti þegar Fröken hljóp á tímanum 7,33.

Þorsteinn Björnsson hefur lengi starfað sem reiðkennari við Háskólann á Hólum ásamt því að vera viðloðandi keppnis -og kynbótavöllinn síðustu ár.