Landsmót 2011

Mikið “aksjón” - myndir

24.06.2011 - 08:34
Það er mikið um að vera hér á Vindheimamelum í Skagafirði í dag. Knapar eru á fullu að þjálfa gæðinga sína og koma sér fyrir á tjaldsvæðunum.  Fulltrúi Landsmóts rölti um glæsilegt mótssvæðið og tók púlsinn á fólki í dag.
 
Telma Dögg frá Húsavík
“Ég er að fara að keppa í barnaflokki á sunnudaginn,” sagði Telma Dögg Róbertsdóttir 10 ára að verða 11 ára, úr hestamannafélaginu Grana á Húsavík.
 
Hún var að ljúka við að æfa sig á keppnisvellinum, undir dyggri stjórn Erlings Ingvarssonar reiðkennara og þjálfara. Hesturinn sem Telma Dögg keppir á heitir Greifi og er frá Hóli. “Hann er mjög góður hestur, mamma á hann en ég fæ að þjálfa hann og keppa á honum, “ segir Telma Dögg og er hún með vinkonu sína hana Dagnýju Önnu sér til halds og trausts. Þær stöllur eru mikið saman í hestunum á Húsavík og eru með algjöra hestadellu. Við óskum Telmu Dögg góðs gengis á sunnudaginn!
 
Fyrsta landsmótið mitt
Aníta Lára Ólafsdóttir var að kemba og pússa hestinn Feng frá Hofsstöðum en þau keppa í ungmennaflokki á mánudaginn. “Þetta er í fyrsta sinn sem ég keppi á landsmóti en Fengur er með mikla reynslu, keppti í B-flokki einhvern tímann,” segir Aníta brosandi og ánægð með sinn hest sem hún kallar stundum ‘kettlinginn’ þar sem hann er með svo lítið hjarta! “Markmiðið er að komast í milliriðil, topp 30. Við Fengur hlutum 8.27 í úrtökunni í Fáki og stefnum á að bæta okkur. Aníta er á síðasta ári í ungmennaflokki og segir bara spennandi áskorun að fara að keppa við þá allra sterkustu á næsta ári. Hún hefur öðlast mikla reynslu á því að vinna hjá Ragnari Hinrikssyni síðustu sjö árin og er nú í hestafræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. “Maður verður að spýta í lófana og bæta sig við hvert mót sem maður tekur þátt í og þjálfa með það að markmiði,” segir þessi hressa unga kona að lokum.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Aníta Lára og Fengur frá Hofsstöðum.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Vindheimamelar fimmtudagskvöld.