Hestasæði drukkið á nýsjálenskri krá

25.06.2011 - 08:24
Hestasæði með eplabragði er nú á boðstólnum á nýsjálenskri krá í Wellington í tilefni af mánaðarlangri hátíð þar í landi sem einkennist af bjórdrykkju og undarlegum matarsamsetningum.
 
Viðtal við kráarkokkinn, Jason Varley, birtist á vefsíðu nýsjálenska miðilsins The Dominion Post. Þar segir hann sæðisdrykkinn, sem ber nafnið Hoihoi tatea, vera vinsælastan meðal kvenkyns viðskiptavina kráarinnar, og hafi margar þeirra í kjölfarið sagst ætla að vinna að auknu grasáti eiginmanna sinna. Hinsvegar hafi sumar konur orðið áhyggjufullar eftir drykkjuna og velt því fyrir sér hvort þær ættu það á hættu að eignast óvenju langleit börn.

Þá segir Jason að karlmenn virðist eiga öllu erfiðara með að taka Hoihoi tatea opnum örmum en þeir sem safnað hafi kjarki og smakkað drykkinn hafi sagt hann vera bragðgóðan. Sjálfur segir hann drykkinn vera allt í lagi og líkir honum við búðing.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hestasæðisdrykkurinn er borinn fram í Nýja Sjálandi en þó segist kokkurinn ekki vita til þess að nokkur hafi sötrað á honum oftar en einu sinni.

Drykkurinn verður á boðstólum þar til bjór- og matarhátíðinni lýkur þann 3. júlí.
 
frétt visir.is