Yfirheyrðir vegna dýraníðs

Mynd úr myndasafni

Enginn hefur réttarstöðu grunaðs

27.06.2011 - 19:53
Lögreglan á Sauðárkróki hefur yfirheyrt nokkra menn í tengslum við dýraníðsmál sem upp kom á hestabýlinu Flugumýri í Skagafirði. Í síðustu viku var málið kært til lögreglu en dularfullir áverkar höfðu fundist á þremur hryssum á býlinu. Allar voru þær með skurði, en tvær voru með skurð á snoppu og ein þeirra með skurð á kynfærum.
 
Þá hefur fréttastofa Vísis eftir Sigríði Björnsdóttur, dýralækni hjá Matvælastofnun, að yfirgnæfandi líkur sé á því að sárin séu af mannavöldum. Sigríður rannsakaði sárin á hryssunum og skilaði niðurstöðum sínum til lögreglunnar. Nokkrir hafa verið yfirheyrðir en enginn hefur réttarstöðu grunaðs að sögn lögreglu.

Þá hefur lögreglan á Egilsstöðum svipað mál til rannsóknar, en þar fundust langir skurðir á kynfærum hryssu fyrir um mánuði síðan.
 
frétt DV.is