Rekstrarvandi Háskólans á Hólum

Uppsafnaður halli frá fyrri árum

06.10.2011 - 11:18
Rekstrarvandi Háskólans á Hólum, sem tilgreindur er í ríkisreikningi, er vegna uppsafnaðs rekstrarhalla frá fyrri árum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.
Fjallað var um fjármál Hólaskóla í sjónvarpsfréttum í gær. Þar var ranghermt að skólinn hefði farið 220 milljónir króna fram úr fjárheimildum undanfarin þrjú ár. Hið rétta var að skólinn hefur burðast með um sjötíu milljón króna skuld frá fyrri tíð. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

Menntamálaráðuneytið segir að undanfarin þrjú ár hafi reksturinn verið í jafnvægi. Menntamálaráðuneytið eigi nú í viðræðum við fjármálaráðuneytið um hvernig skuli taka á halla fyrri ára. Að öllum líkindum verði leyst úr þeim vanda á þessu ári.