Hrossablót Söguseturs íslenska hestsins

Um er að ræða glæsilega veislu þar sem hrossið verður í aðalhlutverki

13.10.2011 - 09:38
Hið rómaða Hrossablót Söguseturs íslenska hestsins verður haldið á Hótel Varmahlíð, laugardagskvöldið 15. október. Um er að ræða glæsilega veislu þar sem hrossið verður í aðalhlutverki, bæði á matseðli og í skemmtidagskrá. Þetta er fjórða árið í röð sem blótið er haldið.
 
Hrossablótið hefur ætíð hlotið mikið lof en það eru Þórhildur María og Friðrik V sem töfra fram kræsingarnar að venju. Að þessu sinni verður veislustjórn í höndum Ólafs Sigurgeirssonar, ræðumaður kvöldsins verður Björn Björnsson og lagið tekur Helga Rós Indriðadóttir.

Að sögn Örnu Bjargar á Sögusetri íslenska hestsins og Svanhildar á Hótel Varmahlíð hefur ætíð verið uppselt á blótið. Engu að síður segja þær að ekki komi til greina að fjölga þeim eða færa í stærra húsnæði. Þetta sé einstakur viðburður og þær vilji halda sérstöðu hans í núverandi mynd.