Kynbótamat hrossa, haustkeyrsla 2011

Mynd / Martina Gates

Kynbótamatið sem birtist í WorldFeng er fyrir öll hross sem ná að lágmarki 30% öryggi á matinu

15.10.2011 - 09:42
Nýtt kynbótamat hefur verið reiknað og lagt inn á gagnabankann WorldFeng. Í því er auk eldri dóma, tekið tillit til allra kynbótadóma á íslenskum hrossum árið 2011 hvar sem er í heiminum.
 
Fyrir notendur WorldFengs eru tvær leiðir til að nálgast kynbótamatið, annarsvegar í gegnum flipann kynbótamat í grunnmynd hrossins og hinsvegar að velja línuna skýrslur í vinstri stiku forritsins og þar undir kynbótamat og setja inn ákveðin leitarskilyrði. Kemur þá upp listi yfir þau hross sem uppfylla viðkomandi skilyrði.

Kynbótamatið er reiknað með svokallaðri BLUP aðferð sem alþekkt er orðin í búfjárræktarstarfi um allan heim. BLUP er skammstöfun fyrir Best Linear Unbiased Prediction þ.e. besta línulega óskekkta spá um kynbótagildi gripa út frá upplýsingum um mælda eiginleika í dómum og ætternisupplýsingum.
 
Hvað íslensk hross varðar leiðréttir aðferðin fyrir áhrifum fastra umhverfisáhrifa svo sem sýningarári, aldri og kynferði auk þess sem tekið er tillit til sýningarlands. Þær dómseinkunnir sem notaðar eru við útreikninga eru frá þeim dómi þar sem hrossið náði hæstri aldursleiðréttri aðaleinkunn samkvæmt núverandi vægisstuðlum eiginleikanna. Í dag eru notaðar eftirfarandi aldursleiðréttingar; fyrir hesta; 4v +0.30; 5v +0.15; 6v +0.07; og 7v og eldri 0.00, fyrir hryssur; 4v +0.20; 5v +0.10; 6v +0.05; og 7v og eldri 0.00.

Kynbótamatið sem birtist í WorldFeng er fyrir öll hross sem ná að lágmarki 30% öryggi á matinu. Kynbótamatið er kvarðað þannig að meðaleinkunn hrossa í útreikningunum með dóm á Íslandi síðustu 15 árin er sett sem 100. Í ár var því viðmiðunarhópurinn dæmdur árin 1997 – 2011.
Á kynbótamatssíðu hvers grips í WorldFeng koma fram eftirfarandi upplýsingar:

1) Höfuð (Kynbótamat)   2) Háls/herðar/bógar (Kynbótamat)
3) Bak og lend (Kynbótamat)   4) Samræmi (Kynbótamat)
5) Fótagerð (Kynbótamat)   6) Réttleiki (Kynbótamat)
7) Hófar (Kynbótamat)   8) Prúðleiki (Kynbótamat)
9) Sköpulag (Kynbótamat)   10) Tölt (Kynbótamat) 
11) Brokk (Kynbótamat)   12) Skeið (Kynbótamat) 
13) Stökk (Kynbótamat)   14) Vilji og geðslag (Kynbótamat)
15) Fegurð í reið (Kynbótamat)  16) Fet (Kynbótamat)
17) Hæfileikar (Kynbótamat)  18) Hægt tölt (Kynbótamat)
19) Aðaleinkunn (Kynbótamat)
20) Hæð á herðar (Kynbótamat í sm sem frávik frá stofnmeðaltali)
21) Öryggi matsins (líkleg fylgni milli metins og sanns kynbótagildis í %)
22) Staðalskekkja matsins (staðalfrávik +/-) 23) Afkvæmafrávik fyrir sköpulag 
24) Afkvæmafrávik fyrir hæfileika  25) Afkvæmafrávik fyrir aðaleinkunn
26) Fjöldi skráðra afkvæma þegar kynbótamatið var reiknað
27) Fjöldi afkvæma með fullnaðardóm 28) Skyldleikaræktarstuðull í %
29) Fjöldi foreldra með kynbótamat  30) Fjöldi afkvæma með mál á hæð á herðakamb
31) Fjöldi afkvæma með prúðleikaeinkunn 32) Fjöldi afkvæma með einkunn fyrir hægt tölt
33) Fjöldi afkvæma með einkunn fyrir fet 34) Dómsland (IS, DK, o.s. frv.)

Afkvæmafrávik er birt fyrir hross með eigin dóm árið 1990 eða síðar sem eiga dæmd afkvæmi. Afkvæmafrávikið segir til um hvaða áhrif afkvæmin hafa á kynbótamatið sem frávik frá því mati sem byggir einungis á ætterni og eigin dómi gripsins.

Guðlaugur V. Antonsson
Hrossaræktarráðunautur BÍ.