Íslenskir hestar á Times Square

Gæðingarnir Klerkur og Dagfari á Times Square

07.11.2011 - 12:53
Ljósaskiltin og umferðarniðurinn á Times Square í New York eru ekki beinlínis náttúrulegt umhverfi íslenska hestsins, enda vöktu gæðingarnir Klerkur og Dagfari talsverða athygli þegar þeir spókuðu sig þar í morgun. Hestarnir komu fram í beinni útsendingu í sjónvarpsþættinum Good Morning America, fyrir framan 4,5 milljónir áhorfenda.
 
Klerkur og Dagfari voru notaðir til að vekja athygli á væntanlegum þáttum í sjónvarpsseríunni Born to Explore sem teknir voru upp á Íslandi í haust. Þáttastjórnandinn Richard Wiese ferðaðist um Ísland í september og heimsótti m.a. Vestmannaeyjar og Skagafjörð. Wiese og tökulið hans féllu fyrir landinu og ákveðið var að gera tvo þætti um Íslandsförina.

Báðir þættirnir verða sýndir á besta tíma í s.k.  „sweep week", en þá fara fram áhorfsmælingar og sýna því helstu sjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna sitt besta efni til að skora hátt. ABC Tv virðist því veðja á að Ísland trekki áhorfendur að skjánum. Visit Iceland í Bandaríkjunum telja sjónvarpsútsendinguna frábært tækifæri til að vekja athygli á Íslandi sem áfangastað utan háannatíma, sem er einmitt það sem stefnt er að með átakinu Ísland allt árið.

Fyrri þátturinn um Ísland verður sýndur á morgun, 29. október, en sá síðari laugardaginn 4. febrúar.

Hér er hægt er að horfa á innslagið með íslensku hestunum í Good Morning America.
 
frett mbl.is