Landsmóts sjónvarpið sett í gang aftur

Verður klárt fyrir jólin

14.11.2011 - 19:17
Nú fer Landsmóts sjónvarpið að vakna til lífsins aftur og í framhaldi af því verður boðið upp á þá nýjung að geta gerst áskrifandi að svokölluðu Landsmóts-sjónvarpi. Til að byrja með verður 140 mín samantekt frá Landsmóti 2011 aðgengileg í gegnum sjónvarpsáskriftina.
 
Fljótlega bætist kynbótaefnið við þegar lokið verður við að klippa það saman en þar að baki liggur gríðarleg vinna og áætlað er að heildartími kynbótaefnis verði um 8 klukkustundir. Bæði kynbótaefnið sem og samantektin verða sett upp sem kaflaskipt VoD efni og áhorfandinn á því að geta fikrað sig áfram á mjög einfaldan hátt innan efnisins sem í boði verður.
 
Síðar bætist við efni frá ístöltum ásamt myndum frá eldri mótum og sjónvarp Landsmóts verður því spennandi afþreyingarmiðill fyrir áhugafólk um íslenska hestinn. Landsmóts sjónvarpið verður aðgengilegt í gegnum vef mótsins: www.landsmot.is og mun kosta 800 krónur á mánuði í 12 mánaða áskrift.
 
Þá er rétt að taka það fram að efnið verður aðgengilegt í mismunandi gæðum, sem hentar mismunandi tengigetu hjá fólki. Stefnt er að því að sjónvarpið verði tilbúið fyrir jólin.  Þá er einnig rétt að ítreka það að fyrir þá sem það kjósa verður að sjálfsögðu einnig hægt að versla disk með hápunktum mótins og diska með öllu kynbótaefninu.
 
Pantanir skulu sendast á [email protected]  Nokkrir daga líða þangað til pöntun berst og þar til diskurinn er kominn í hendur viðtakanda. Við hvetjum því fólk sem ætlar að gefa diskana í jólagjöf að panta tímanlega.
 
frett landsmot.is