Ræktunarbú HEÞ 2011 er Ytri-Bægisá I

Þorvar og Haukur ræktunarmenn ársins hjá HEÞ / mynd hryssa.is

Sex bú voru tilnefnd

26.11.2011 - 14:49
Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Eyfirðinga og Þingeyinga var haldinn þann 24. nóvember í Ljósvetningabúð. Fjölmenni var á fundinum eða um 70 manns en þessir fundir hafa ávalt verið vel sóttir af hestaáhugafólki á Norðausturlandi.
 
Fyrirlesarar að þessu sinni voru þau Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur BÍ og Mette Mannseth tamningamaður og reiðkennari við Háskólann á Hólum. Guðlaugur fór að venju vítt og breytt yfir hrossaræktarsviðið en Mette hélt afar fróðlegt erindi um tamningu, þjálfun og undirbúning unghrossa sem stefnt er með í kynbótasýningu.
 
Ræktendur hlutu viðurkenningar fyrir 3 efstu hross í hverjum flokki en jafnframt voru veitt sérstök verðlaun fyrir hæst dæmda kynbótahrossið (aldursleiðréttur dómur skv. viðmiðun BÍ.). Hæst dæmda hrossið var 4 vetra stóðhesturinn Eldur frá Torfunesi með einkuninna 8,37 sem jafngildir 8,67 sé tekið tillit til aldursleiðréttingar. Sex bú voru tilnefnd til ræktunarverðauna HEÞ.
 
Þau eru í stafrófsröð: Grund II, Komma, Litla-Brekka, Ytra-Dalsgerði og Ytri-Bægisá I. Ræktunarbú HEÞ 2011 er Ytri-Bægisá I í Hörgársveit. Þar á bæ stunda hrossarækt þeir Haukur Sigfússon og Þorvar Þorsteinsson. Á þessu ári voru sýnd þrjú hross frá búinu í kynbótadómi. Meðaleinkunn sýndra hrossa var 8,13 og var meðalaldur þeirra 6 ár. Tvö af þeim hlutu 8,0 eða hærra í aðaleinkunn. Langefstur í þeim hópi er stóðhesturinn Stáli frá Ytri-Bægisá sem hlaut 8,41 í aðaleinkunn á Landsmótinu á Vindheimamelum sl. sumar. Ræktendur á Ytri-Bægisá hafa um nokkura ára skeið stundað farsæla hrossarækt þar sem áhersla er lögð á gæði umfram magn.
 
Eftir að verðlaunaveitingum og erindum lauk kvaddi sér hljóðs Þorsteinn Egilson og óskaði eftir stuðningi fundarins við umsókn Funa um Landsmót á Melgerðismelum 2014. Lagði hann fram eftirfarandi tillögu sem samþykkt var samhljóða. “Haustfundur HEÞ, haldinn í Ljósvetningabúð 24. nóvember 2011, styður umsókn Hestamannafélagsins Funa um að Landsmót hestamanna 2014 verði haldið á Melgerðismelum.
 
Jafnframt minnir fundurinn á samþykkt aðalfundar Félags hrossabænda 2011 þess efnis að landsmót skulu haldin til skiptis á Norðulandi og Suðurlandi. Á Melgerðismelum er frábær aðstaða fyrir landsmót, m.a. með nýjum hestvænum kynbótavelli. Alla aðstöðu fyrir ferðamenn er að finna innan 25 km fjarlægðar frá mótssvæðinu og á Akureyri eru öflugar samgöngumiðstöðvar. Telur fundurinn tímabært að efna aftur til Landsmóts hestamanna á félagssvæði HEÞ.”

Hér má nálgast yfirlit yfir þau hross sem hlutu viðurkenningar á fundinum.

frett hryssa.is