World Fengur opinn að hluta

07.12.2011 - 20:11
Í tilefni af 10 ára afmæli WorldFengs, upprunaættbókar íslenskra hestsins, og 20 ára afmæli Fengs, skipulags skýrsluhaldskerfis í hrossarækt á Íslandi, þá verður WorldFengur opnaður að hluta fyrir alla fyrir lok ársins 2011.
Aðgangur að fréttum, dómaskrám kynbótasýninga, sýningaskrár íþrótta- og gæðingakeppna og einföld leit að hrossum verður opinn öllum. Þetta er í samræmi við samkomulag milli Bændasamtaka Íslands og FEIF, alþjóðasamtök eigenda íslenska hestsins, en það samkomulag hljóðaði upp á frían aðgang að takmörkuðum hluta WorldFengs fyrir alla sem áhuga hafa á íslenska hestinum hvar sem er í heiminum.
 
Jafnframt er þetta í samræmi við niðurstöðu nefndar sem íslensk stjórnvöld skipuðu um markaðssetningu íslenska hestsins. Markmiðið með opnunni er að stuðla að markvissari markaðssetningu íslenska hestsins innanlands og erlendis, enda er WorldFengur óumdeildur markaðsgluggi umheimsins fyrir íslenska hrossarækt, að sögn Jóns Baldurs Lorange, verkefnisstjóra WorldFengs verkefnisins. Jón Baldur minnir einnig á fleyg orð Guðna Ágústssonar, fyrrverandi landbúnaðarráðherra Íslands, að ,,WorldFengur væri hið alsjáandi auga Óðins".

Þegar hefur WorldFengur verið ,,opnaður" fyrir stóðhestavefi og aðra vefi í gegnum vefþjónustu (XML) sem veita upplýsingar um íslenska hestinn, og vilja tryggja réttar upplýsingar um íslensk hross. Þannig er tryggður rauntímaaðgangur að upprunaættbókinni fyrir þá fjölmörgu sem vilja kynna íslenska hestinn á vefnum á þann hátt sem þeim hugnast hverju sinni.

Eftir sem áður þá mun þurfa að vera áskrifandi með aðgangsorðum til að hafa aðgang að langstærstum hluta WorldFengs svo sem heimarétt, afkvæmalista, ættartré, skýrslum, einstökum kynbótadómum, DNA ætternisupplýsingum o.fl. Það skal minnt á að allir félagar í FEIF í 19 löndum eru með frían aðgang að WorldFeng í gegnum aðildarfélög. Sérstaklega skulu félagar í Landssambandi hestamannafélaga á Íslandi minntir á þetta, en ótrúlega margir LH félagar um allt land hafa ekki nýtt sér sinn aðgang ennþá.