Kristinn Valdimarsson ræktunarmaður Fáks 2011

08.12.2011 - 19:35
Kristinn Valdimarsson, eða Kiddi í Barka eins og hann er yfirleitt kallaður, náði þeim merka áfanga að verða ræktunarmaður Fáks 2011 fyrir stóðhestinn Barða frá Laugarbökkum.
 
Kristinn geymir því hinn fagra Ræktunarbikar sem Rangárbakkar gáfu Fáki í tilefni 80 ára afmælinu 2002. Í stofnskrá um bikarinn segir að hann skuli veittur þeim félagsmanni í Fáki sem ræktað hefur og á hæst dæmda kynbótahrossið það árið.
 
Í ár var keppnin óvenju hörð því tvö efstu kynbótahrossin voru með sömu aðaleinkunn, en þegar Guðlaugur hrossaræktarráðunautur var búinn að reikna þau upp með fleiri aukastöðum munaði 0,00250 á þeim. Kristinn hlaut því bikarinn fyrir stóðhestinn Barða frá Laugarbökkum.
 
Barði var sýndur í flokki 7. vetra og eldri stóðhesta á landsmótinu í sumar og varð í sjötta sæti í þeim flokki. Fékk hann 8,51 í aðaleinkunn, þar af 8,28 fyrir byggingu og 8,66 fyrir hæfileika. Hæstu einkunnir Barða eru 9,0 fyrir bak og lend, tölt, hægt tölt, stökk og fegurð í reið.
 
Glæsilegur alhliða hestur og stór ættaður í þokkbót. Ef skoðað er ættar tréð hans þá eru langafarnir fjórir máttastólfar í íslenskri hrossarækt, Hrafn frá Holtsmúla, Náttfari frá Ytra-Dalsgerði, Ófeigur frá Flugumýri og Otur frá Sauðárkróki. Faðir Barða er Þokki frá Kýrholti (8,73) og móðir hans er Orradóttirin Birta frá Hvolsvelli (8,22)

Kristinn og Erla Gerður, til hamingju með glæsilegan hest.