Ísland ein mesta hestaþjóð veraldar

02.01.2012 - 10:26
„Er Ísland mesta hestaþjóð veraldar?“ er spurt í fyrirsögn hestavefjarins Horsetalk og vikið að þeirri niðurstöðu Ingibjargar Sigurðardóttur, dósents við Háskólann á Hólum, að hestaeign sé hér miklu útbreiddari en í Evrópu.
 
Er þannig rakið hvernig Ingibjörgu teljist til að 240 hross séu á hverja þúsund íbúa á Íslandi, borið saman við 13 á hverja þúsund íbúa í Evrópu.

Íbúafjöldinn sé 318.450 og alls 77.158 hross í landinu.

Kallar eftir auknum rannsóknum

Ingibjörg telur að betur þurfi að rannsaka hrossaræktina sem sé vaxandi iðngrein á Íslandi.

„Þrátt fyrir mikinn fjölda hrossa á Íslandi og vísbendingar um að hrossarækt færist í vöxt hefur verið lítið um rannsóknir á efnahagslegu umfangi og uppbyggingu greinarinnar á Íslandi,“ hefur vefurinn eftir Ingibjörgu.

Segir vefurinn að doktorsnemi leggi nú stund á rannsóknir á greininni.

Einnig kemur þar fram að 493.941 erlendur ferðamaður hafi komið til Íslands árið 2009 og að um 79.000 þeirra hafi farið á hestbak, eða um 16% erlendra ferðamanna það ár.

Greinina á vef Horsetalk má nálgast hér.
 
mbl.is