WorldFengur fagnar nýjum áskorunum á árinu 2012

02.01.2012 - 10:49
Nú þegar árið 2012 er gengið í garð og árið 2011 er að baki þá er ástæða til að fagna þeim tækifærum sem bíða á nýju ári. WorldFengur heldur inn í sitt 11 ár og verkefnin eru ærin.
 
Á nýju ári verður bætt við nýrri þjónustu við þátttakendur í kynbótasýningum að þeir geti skráð hross til þátttöku í WorldFeng og gengið frá greiðslu sýningargjalds með rafrænum hætti með kredit eða debetkorti. Þetta mun gera allt utanumhald auðveldara og öruggara, sem á að lækka kostnað við sýningarhald til lengri tíma litið.
 
Þá liggur fyrir samkomulag við Landssamband hestamannafélaga að gera slíkt hið sama hvað varðar íþróttakeppnir í SportFeng, sem er dótturforrit WorldFengs. Ennþá á eftir að koma öllum afkvæmasýningum inn í upprunaættbókina sem verður eitt af fjölmörgum verkefnum ársins 2012.
 
Þá má nefna áframhaldandi vinnu í þágu einstakra aðildarfélaga FEIF erlendis til að gera WorldFeng að enn betra ættbókarkerfi hvers lands. Þar hafa FEIF félögin í Danmörku (DI), Svíþjóð (SIF) og Hollandi (NSIJP) verið umsvifamikil. Að síðustu má nefna áskoranir í að WorlFengur þjóni betur einstökum vefsíðum sem bakhjarl upplýsinga um íslenska hestinn en stór skref voru stigin á árinu 2011 í þeim efnum.
 
Öll þessi verkefni verða unnin í nánu samstarfi við þá áhugasömu WF skrásetjara nú sem endranær í öllum aðildarfélögum FEIF. /Með góðum nýárskveðjum, Jón Baldur Lorange, verkefnisstjóri WF.
 
worldfengur.com