Meistaradeild 2012 - Lið Hrímnis

09.01.2012 - 10:54
Þriðja liðið sem við kynnum til leiks er Hrímnisliðið. Liðið hefur tekið töluverðum breytingum frá því í fyrra en Viðar Ingólfsson er áfram liðsstjóri en aðrir liðsmenn eru Artemisia Bertus, Daníel Ingi Smárason og John Kristinn Sigurjónsson.
 
Þetta er annað ár Hrímnis í deildinni og býður Meistaradeildin liðið velkomið til leiks á ný.

Viðar Ingólfsson, liðsstjóri, stundar tamningar og þjálfun að Kvíarhóli, Ölfusi. Hann er margfaldur Íslandsmeistari, Landsmótssigurvegari í tölti ásamt mörgum öðrum fræknum sigrum. Hann var íþróttaknapi ársins 2008 og gæðingaknapi ársins 2007. Viðar sigraði Meistaradeildina 2007 og 2008.

Artemisia Bertus er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla og starfaði þar um nokkurra ára skeið. Hún hefur verið með aðstöðu á Ingólfshvoli frá því í haust. Artemisia hefur verið að gera góða hluti í kynbótasýningum á undanförnum árum.

Daníel Ingi Smárason stundar sína hestamennsku í Hafnarfirði. Daníel Ingi hefur verið að gera góða hluti í keppni undanfarin ár en þó sérstaklega á skeiðbrautinni. Hann sigraði 100m skeið á LM 2011. Daníel er í 1 sæti á World ranking listanum í 100m skeiði ásamt því að vera í 4 sæti á listanum í 250m skeiði.

John Kristinn Sigurjónsson er tamningamaður FT og starfar við tamningar að Ármóti á Rangárvöllum. John hefur verið að gera góða hluti í keppni og kynbótasýningum á undanförnum árum.

Icesaddles er framleiðandi gæða hnakka og reiðtygja undir vörumerkinu Hrímnir. Hnakkarnir eru framleiddir af einum virtasta söðlasmiði heims, en auk Hrímnis framleiðir hann hnakka fyrir marga af fremstu reiðmönnum erlendra hestakynja. Lögð hefur verið áhersla á gæði, næmni og gott jafnvægi, en hnakkurinn hefur verið þróaður í samstarfi við stórfyrirtæki á við Dupont og Bayer. Hnakkarnir eru seldi í 15 löndum og notaðir af fjölda fagmanna.