Meistaradeild 2012 lið Spónn.is

12.01.2012 - 15:59
Næsta lið sem við kynnum til leiks í Meistaradeild í hestaíþróttum er Spónn.is en það kom nýtt inn í deildina í fyrra. Liðsstjóri liðsins er Sigursteinn Sumarliðason og með honum eru þeir Elvar Þormarsson, Ólafur Ásgeirsson og Ævar Örn Guðjónsson.
 
Sigursteinn Sumarliðason, liðsstjóri, stundar tamningu og þjálfun á Selfossi. Hann var kjörinn gæðingaknapi ársins 2010 og íþróttaknapi ársins 2011, varð heimsmeistari í gæðingaskeiði 2007. Landsmótssigurvegari og Íslandsmeistari í tölti 2011.

Elvar Þormarsson stundar tamningar og þjálfun á Hvolsvelli. Stundar hrossarækt ásamt fjölskyldu sinni á Strandarhjáleigu og hlutu þau titilinn ræktunarbú ársins 2009. Hann varð Íslandsmeistari í fjórgangi 2010 og hefur verið að gera góða hluti í keppni og sýningum á undanförnum árum.

Ólafur Ásgeirsson hefur stundað tamningar og þjálfun að Vesturkoti, Skeiðum, um nokkurt skeið. Ólafur hefur staðið framarlega á keppnisbrautinni undanfarin ár og einnig verið að gera góða hluti í kynbótasýningum.

Ævar Örn Guðjónsson er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hann rekur tamningastöð á félagssvæði Andvara. Á undanförnum árum hefur hann náð glæstum árangri á keppnisbrautinni sem og á kynbótabrautinni.

Fengur ehf. (spónn.is) var stofnað á árinu 2009 af Sigurði Halldórssyni.
Fyrirtækið rekur meðal annars endurvinnslu sem sett var upp í framhaldi af tilraunum sem gerðar voru á árinu 2008 um nýtingu timburs sem fellur til hér á landi til framleiðslu á spón. Lögð er áhersla á að nota vistvæna orkugjafa til framleiðslunnar.

Í dag framleiðir endurvinnslan spón fyrir íslenskan landbúnað. Áætlað er að framleiða um 3000 tonn á ári fyrir innlendan markað.