Barátta fram á síðustu stundu

14.01.2012 - 23:04
Margir af bestu knöpum landsins leiða saman hesta sína í Meistaradeild í hestaíþróttum sem hefst með keppni í fjórgangi í Ölfushöllinni fimmtudaginn 26. janúar. Liðin hafa verið kynnt.
 
Sjö lið eru í keppninni, eins og áður, og eru fjórir knapar í hverju.

„Mótið verður sterkara með hverju ári. Það er mikill metnaður hjá knöpunum að vera með góða hesta og gera vel,“ segir Maríanna Gunnarsdóttir sem vinnur að undirbúningi. „Í fyrra var jöfn barátta í öllum greinum, fram á síðustu stundu.“

Hestaáhugafólk hefur fjölmennt á mótin undanfarin ár. Ölfushöllin tekur um 800 gesti og var yfirfullt flest kvöldin.

Meistaradeildin er mótaröð sem haldin er í Ölfushöllinni, yfirleitt hálfsmánaðarlega og þá á fimmtudagskvöldum. Lokamótið verður 30. mars.

Liðin kynnt

Fyrsta liðið sem kynnt er til leiks er lið Auðsholtshjáleigu. Nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu frá því í fyrra en það er skipað Þórdísi Erlu Gunnarsdóttur, liðsstjóra, Eyvindi Mandal Hreggviðssyni, Hauki Baldvinssyni og Lenu Zielinski.

Liðið Árbakki / Norður-Götur er aðeins breytt. Liðsstjóri er Hinrik Bragason en með honum eru Hulda Gústafsdóttir, Ragnar Tómasson og Teitur Árnason.

Hrímnisliðið hefur tekið töluverðum breytingum frá því í fyrra en Viðar Ingólfsson er áfram liðsstjóri og aðrir liðsmenn eru Artemisia Bertus, Daníel Ingi Smárason og John Kristinn Sigurjónsson.

Elsta liðið í deildinni er lið Lýsis. Liðið bar sigur úr býtum í liðakeppninni 2011. Tvær breytingar hafa orðið síðan þá en liðsstjórinn er sá sami og undanfarin ár, Sigurður Sigurðarson og með honum eru þeir Eyjólfur Þorsteinsson, Sigurbjörn Bárðarson og Sylvía Sigurbjörnsdóttir.

Í liði Ganghesta /  Málningar er Sigurður Vignir Matthíasson liðsstjóri eins og áður en tveir nýir liðsmenn hafa bæst í hópinn. Með Sigurði í liði eru Edda Rún Ragnarsdóttir, Sara Ástþórsdóttir og Valdimar Bergstað.

Liðið Spónn.is kom nýtt inn í deildina í fyrra. Liðsstjóri er Sigursteinn Sumarliðason og með honum eru þeir Elvar Þormarsson, Ólafur Ásgeirsson og Ævar Örn Guðjónsson.

Liðsstjóri Top Reiter / Ármóts er Guðmundur Björgvinsson og með honum eru Jakob Sigurðsson, Sigurður Óli Kristinsson og Þorvaldur Árni Þorvaldsson.
 
mbl.is