Töltkeppni Meistaradeildar

Opið bréf Hestafrétta til Meistaradeildar í Hestaíþróttum

29.02.2012 - 21:02
Skal ég berja mér á brjóst eins og enginn sé morgundagurinn! Mín hugleiðing varðandi þetta ofurpot Meistaradeildarinnar er á leið í loftið en á meðan birti ég opðið bréf frá Hestafréttum varðandi aulaháttinn sem á sér stað í Meistaradeildinni hvað fjölmiðla varðar. Myndband frá töltkeppni er birt hér með og mér er bara alveg sama. KV Daníel Ben
 
Opið bréf Hestafrétta til Meistaradeildar í Hestaíþróttum
 
Fyrir nokkru skrifaði Jens Einarsson ritstjóri á Hestablaðinu opið bréf til Meistaradeildar í hestaíþróttum þess efnis, meðal annars, að ósanngjörn mismunun í garð fjölmiðla ætti sér stað á mótum Meistaradeildarinnar í Ölfushöll. Hestafréttir birtu bréfið hér á vefnum, enda höfðu blaðamenn Hestafrétta orðið fyrir svipaðri upplifun og Jens. Útskýringar voru gefnar, þótt þunnar væru; hagsmunir deildarinnar væru hér að leiðarljósi!

Nú er hins vegar það hart vegið að Hestafréttum að ekki er annað hægt en vekja aftur athygli á málinu. Hestafréttir hafa verið með öflugan fréttaflutning frá Meistardeild til margra ára, fréttir og beinar útsendingar á vefnum. En nú hafa okkur verið settar þröngar skorður. Einungis má sýna örfáar mínútur frá keppninni, ekkert má sýna frá forkeppni og örfáar mínútur frá úrslitum. Hestafréttir hafa því í vetur reynt að leggja meiri áherslu á viðtöl og umfjöllun fyrir utan keppnisvöllinn.

Hestafréttum var ekki gefinn kostur á að gera tilboð í beinar útsendingar. Ástæðan var sú að gæði útsendingar var ekki sem skyldi þegar Hestafréttir tóku að sér þann þátt fyrir nokkrum árum síðan. Að mati Meistaradeildarinnar. Það má reyndar rekja til þess að gæði á nettengingu í Ölfushöllinni var ábótavant. Á síðasta móti klikkaði bein útsending frá mótinu (frá Sport.tv á vef Meistaradeildar og Eiðfaxa). Það þýðir væntanlega að Sport.tv verði ekki gefinn kostur á að sýna beint frá mótinu á næsta ári, eða hvað?!!!

Hestafréttir sóttust eftir samstarfi við Meistaradeild í ár eins og áður til að gera umfjöllun sem besta. Hestafréttum var ekki var boðið uppá „inclusive“ aðgang eða samning líkt og Eiðfaxi fékk. Hestafréttir hafa áður látið Meistardeildinni í té myndir og upptökur án endurgjalds. Hestafréttir buðu Meistaradeildinni að vera með banner á forsíðu en allar tilraunir til samstarfs voru hunsaðar og ekki svarað.

Hestafréttir óska hér með eftir því að Meistaradeild geri opinbera þá samninga sem í gildi eru við Sport.tv, RÚV og Eiðfaxa varðandi upptökur og umfjöllun á mótinu. Það er eðlilegt í lýðræðisríki að öllum sé gefinn kostur á að bjóða fram þjónustu sína, það kemur ár eftir þetta ár. Það hlýtur að vera Meistaradeildinni í hag að geta greitt minna en meira – eða hvað? Að fá sem besta þjónustu fyrir sem lægsta verðið?

Tilefni þessa bréfs er þó fyrst og fremst sú að spillingin, klíkuskapurinn og einokunin náði hámarki þegar upptökur frá töltinu í Meistaradeildinni eru gerðar opinberar á aðeins einum fréttamiðli; Eiðfaxa. Meistaradeildin hefur þegar gert samning og greiðir háar fjárhæðir fyrir upptökur frá mótinu, upptökur sem ekki voru boðnar út og engum gefinn kostur á að gera tilboð í.

En upptökur Meistaradeildar eru hvergi sjáanlegar á heimasíðu Meistaradeildar, þær voru heldur ekki sendar á neina aðra fjölmiðla. Einn fjölmiðill fékk upptökur deildarinnar á silfurfati, sá fjölmiðill þurfti ekki að lyfta litla fingri við upptökur eða klippingu á efninu. Ef það er ekki einokun eða einhversskonar klíkuskapur, þá er Bleik brugðið! Hefði ekki verið eðlilegra að sýna upptökurnar á vef Meistaradeildar og bjóða öllum fjölmiðlum jafnan aðgang að efninu?

Var það stjórn Meistaradeildar í heild sinni sem tók þessa ákvörðun, að Eiðfaxi hefði einkarétt á að sýna upptökur frá forkeppni og úrslitum? Það er eitt að setja ramma og reglur en þegar Meistaradeildin hefur það í hendi sér að „gefa“ einum fjölmiðli efni og sýningarétt og brjóta þar með sínar eigin reglur sem sendar voru á fjölmiðla, þá spyr maður sig hvort þessar reglur séu til að fara eftir þeim, alltaf, eða bara þegar það hentar? Hvar er fordæmisgildið? Siðferðið? Eða fagleg vinnubrögð? Í okkar augum eru þau hvergi sjáanleg.

Þolinmæði Hestafrétta er á þrotum og áhuginn á að sýna deildinni áhuga fer minnkandi með degi hverjum. Okkur sýnist það vera svo með fleiri. Er það það sem Meistaradeildin vill? Eða er það það sem Eiðfaxi vill? Spyr sá sem ekki veit, en ég skora á stjórn Meistaradeildar að svara þeim spurningum sem hér hafa verið settar fram.