Gunnarsholtssýningar endurvaktar

Mynd / mbl.is/Kristinn Ingvarsson

07.03.2012 - 16:52
Stóðhestasýning í anda þeirra sem haldnar voru í Gunnarsholti á Rangárvöllum verður endurvakin í vor að því er fram kemur á fréttavef Eiðfaxa frá því í gær þar sem segir að til standi að endurvekja „Gunnarsholtsstemninguna“
svokölluðu og er í því samhengi vísað í stóðhestasýningar sem árum saman fóru fram í Gunnarsholti á Rangárvöllum á meðan Stóðhestastöð ríkisins var starfrækt þar á svæðinu.

„Í tengslum við útgáfu stóðhestablaðs Eiðfaxa mun Eiðfaxi ásamt hestamannafélaginu Sleipni standa fyrir stóðhestadegi að Brávöllum á Selfossi laugardaginn 28. apríl nk.,“ segir í frétt Eiðfaxa.

Þá kemur fram að sýndir verði ungir og eldri stóðhestar á beinni braut auk þess sem standi til að bjóða upp á sýningu afkvæmahópa og ræktunarbússýningar.

Einn af frægustu hestum sem komu fram á stóðhestasýningunum í Gunnarsholti forðum daga er án efa heiðursverðlaunastóðhesturinn Orri frá Þúfu, sem sýndur var um árið af Rúnu Einarsdóttur, sem lengi vel starfaði við stóðhestastöðina í Gunnarsholti.
 
mbl.is