Níu fimmur og tíur á Ræktun 2012

27.04.2012 - 08:31
Mikill fjöldi hátt dæmdra hrossa mun koma fram á sýningunni Ræktun 2012 sem fram fer í Ölfushöllinni á laugardagskvöldið kemur. Tíu töltararnir Alfa frá Blesastöðum og Díva frá Álfhólum mæta báðar, auk þess sem Kinnskær frá Selfossi (9.5 skeið),
Blæja frá Lýtingsstöðum (9.5 tölt), Hríma frá Þjóðólfshaga (9.5 brokk), Brynglóð frá Brautarholti (9.5 stökk) og Lúpa frá Kílhrauni (9.5 skeið) verða með, svo einhver séu nefnd.

Óttar og Hyllir frá Hvítárholti koma austur sem og hópur stóðhesta frá Litlu-Sandvík og Húnvetnsku dívurnar munu trylla lýðinn, en þær voru valdar flottasta atriðið á Tekið til kostanna fyrir norðan um daginn.

Fjöldi stóðhesta úr ýmsum áttum verður með, s.s. Geisli frá Svanavatni, Vaðall frá Njarðvík, Heiðar frá Austurkoti og Borði frá Fellskoti.
Hrannar frá Flugumýri, sem varð annar í fimm vetra flokki á LM í fyrra, mun gleðja sýningargesti, glæsihrossin Hrafnar og Þóra Dís, Gígjubörn frá Auðsholtshjáleigu, sýna sig og systkinin Uggi og Skriða frá Bergi leika listir sínar. Ungar og efnilegar hryssur koma fram t.d. Hallbera frá Hólum undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu og landsmótssigurvegaranum Frigg frá Miðsitju. Önnur bráðefnileg unghryssa sem nefna má er Klængsdóttirin Tíbrá frá Hemlu II og fleiri flottar mæta til leiks, t.d. þær Skör frá Skjálg og Stjarna frá Stóra-Hofi, systir töltarans fræga, Tuma.

Afkvæmi Gruns frá Oddhóli og dætur Stemmu frá Dalbæ verða meðal afkvæmahópanna og smartar klárhryssur láta sjá sig, t.d. þær Breyting frá Haga og Melkorka frá Hemlu. Verknemar frá Hólaskóla sem starfa á Suðurlandi munu svo opna sýninguna.

Þarna verður semsagt gríðarlegt gæðingaval og gaman eins og alls staðar þar sem hestamenn koma saman. Forsala er í fullum gangi hjá Ástund og Top Reiter í Reykjavík, hjá Baldvini og Þorvaldi á Selfossi, í Árhúsum á Hellu og hjá Fóðurblöndunni á Hvolsvelli. Um að gera að tryggja sér miða á þessa stórskemmtun - allir velkomnir!