Illa sært hross á Þormóðsholti

„Þarf ég eitthvað að fræða fólk um það?“ segir bóndinn

12.06.2012 - 17:19
Myndband þetta hefur gengið manna á milli á Facebook og sýnir hross á Þormóðsholti í Akrahreppi sem er með alvarlegt sár vinstra megin í náranum og annað smærra sár hægra megin.
 
Þegar DV.is hafði samband við bóndann á bænum til að óska eftir nánari upplýsingum um myndbandið og sárin á hrossinu kvaðst bóndinn ekki vilja tjá sig um það. „Þarf ég eitthvað að fræða fólk um það?“ sagði hann.

Myndbandið hefur verið í umferð síðan á sunnudag. Athygli héraðsdýralæknis var vakin á málinu sem hefur farið og kannað aðstæður og ástand hrossins. Í samtali við DV.is segir Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, hjá Matvælastofnun, að Matvælastofnun hafi borist nokkrar tilkynningar vegna málsins.

„Það voru strax gerðar kröfur á eiganda bæjarins um að kalla til dýralækni og mun bóndinn hafa kallað til sjálfstætt starfandi dýralækni til að líta á dýrið. Einnig var farið í fleiri aðgerðir til að koma í veg fyrir að þetta gerðist aftur. Það er búið að bregðast við þessu eins og hægt er.“

Aðspurður segir Halldór að héraðsdýralæknir hafi þurft að hafa afskipti af meðferð hesta á þessum sama bæ fyrir ári síðan.

Meðfylgjandi myndband sýnir slæm sár hrossins.
 
dv.is