Skýrsla um kynbótasýningar á LM

16.10.2012 - 11:19
Á aðalfundi Hrossaræktarsamtaka Suðurlands sem haldinn var 28.mars s.l. var skipaður starfshópur sem ætlað var að fjalla um aðkomu kynbótahrossa að landsmótum.
 
Hópurinn sem nú hefur skilað af sér til stjórnar greinargóðri skýrslu. Starfshópurinn samanstóð af fólki sem hefur vítæka reynslu á sviði hrossaræktar,tamninga ,keppni og kynbótasýninga. Etirtaldir skipuðu starfshópinn : Anton Páll Níelsson,Berglind Ágústdóttir,Guðmundur Björgvinsson,Hulda Gústafsdóttir,Hugrún Jóhansdóttir,Olil Amble,Ólafur H. Einarsson,Pétur Halldórsson og Þórdís Erla Gunnarsdóttir sem var formaður hópsins.

Skýrslan fjallar að stærstum hluta um aðkomu kynbótahrossa að landsmótum og koma mjög margir áhugaverðir punktar fram sem vert er að skoða vel. Starfshópurinn setti einnig fram áhugaverðar hugmyndir undir lið sem þau kalla Rætt og reifað.Þessi skýrsla kemur vonandi kemur til með að skapa umræður meðal hestamanna og gefa forystumönnum greinarinnar hugmyndir um hvað betur mætti gera í sýningarhaldi og ræktunarstarfi.Við þurfum að stækka hópinn sem kemur með tillögur til breytinga og framfara og það teljum við okkur hafa gert með því að setja saman hóp af reynslu miklu fólki úr okkar röðum. Eins og kemur fram í fundarboði haustfundar Hrossaræktarsamtaka Suðurlands (fundurinn er 17.okt í Hliðskjálf á Selfossi og hefst kl 20:00) þá verður skýrslan til kynningar og umræðu á haustfundinum.
Að endingu viljum við í stjórn Hrossaræktarsamtaka Suðurlands þakka öllum þeim sem störfuðu í starfshópnum fyrir þeirra framlag.
Skýrsluna er hægt að lesa í heild sinni hér :

Framkvæmd kynbótasýninga

  Niðurstöður starfshóps sem settur var saman að frumkvæði Hrossaræktarsamtaka Suðurlands. Hópinn skipuðu: Anton Páll Níelsson, Berglind Ágústsdóttir, Guðmundur Björgvinsson, Hugrún Jóhannsdóttir, Hulda Gústafsdóttir, Olil Amble, Ólafur Hafsteinn Einarsson, Pétur Halldórsson (ritari), Þórdís Erla Gunnarsdóttir (formaður).  Fundað var fimm sinnum á skrifstofu Búnaðarsambands Suðurlands haustið 2012 (27. ágúst, 3. sept., 11. sept., 24. sept. og 2. okt.).

Framkvæmd kynbótasýninga á Landsmótum

    Hross skulu hæfileikadæmd á LM. Ekki sé einvörðungu um skrautsýningu að ræða heldur skulu öll kynbótahross á LM hæfileikadæmd á mótinu. Vinnuhópurinn er ekki einróma í þessu áliti sínu – þó mikill meirihluti sammála niðurstöðunni. Rök sem fram eru færð með málinu m.a.:

-          Að öll hross með þátttökurétt á LM sitji við sama borð á stað og stund.

-          Til að viðhalda spennu og áhuga á viðburðinum.

-          Mörg hrossanna eru í þjálfunarferli sem miðar að því að toppa á LM.

Rök gegn þessu formi  t.d.:

-          Kynbótasýningar eru í eðli sínu ekki keppni. Landsmót ættu að vera falleg og fjölbreytt sýning fremur en að kynda undir harðri keppnishugsun. Nóg  úrval sýninga og dóma á hverju vori – sem á að vera afstaðið á LM.

-          Að vera laus við dóma á LM skapar tækifæri til að þróa og prófa margvísleg kynningar og sýningaform.

    Hæfileikadómur á LM skuli ætíð framkvæmdur með sama hætti og formi og á forsýningu /héraðssýningu.

Rök með þeirri niðurstöðu m.a.:

-          Sömu vinnubrögð skyldu viðhöfð á LM og forsýningum til að tryggja samanburðar-hæfni og stöðlun þeirra gagna sem svo eru nýtt til útreiknings á kynbótamati.

    Vinnuhópurinn er klofinn í afstöðu til þess hvort taka beri upp fastan fjölda hæst dæmdu hrossa í hverjum aldursflokki á LM; í stað einkunnalágmarka svo sem verið hefur. Málið þó reifað frá ýmsum hliðum. Fram komin rök með núverandi fyrirkomulagi m.a.:

-          Engin óvissa um þátttökurétt á LM eftir að lágmarkseinkunn er náð. Þar með einfaldara og markvissara þjálfunarferli hvers grips.

-          Hugsanlegt er að fastur fjöldi í flokki myndi auka enn á endursýningar hrossa. Þetta er þó erfitt að fullyrða enda talsvert um endursýningar við núverandi fyrirkomulag.

-          Kostnaður hestaeigenda sem kaupa tamningu/þjálfun er fyrirséðari stærð í núverandi kerfi og ekki háður eins mörgum óvissuþáttum eftir að landsmótslágmarki er náð.

Fram komin rök með því að hverfa til fyrirfram ákveðins fjölda í flokki; byggt á aðaleink.:

-          Einfaldar skipulagningu, tímaramma og allt utanumhald á LM til muna.

-          Beinskeyttari aðferð við að velja einvörðungu það allra besta úr vorsýningum inn á LM.

    Hópurinn er ekki einhuga um hvert beri að stefna varðandi heildarfjölda kynbótahrossa á LM (2008/218, 2011/232, 2012/204). Skoðanir innan hópsins spanna fjöldabil frá ca. 160 hrossum upp í liðlega 200. Í rökræðum hefur m.a. verið bent á:

-          LM hafa verið einhver stærsti og mikilvægasti sýningagluggi ræktenda og þar með gríðarlega mikilvæg auglýsing fyrir þau bú sem eiga fulltrúa.

-          Fleiri hross draga með sér fleira tengt fólk; þ.e. þá í samhengi við aðsókn almennt að LM.

-          LM mega ekki verða sú akkorðsvinna að komi niður á framkvæmd sýninga og/eða gæðum dómstarfa. Hér átt við langar vinnulotur sýnenda og dómara.

    Hópurinn er samstíga varðandi það að ef nauðsyn krefur að fækka kynbótahrossum á LM þá virðist einboðið að fækka helst og fyrst í flokki 5v. hryssna sem voru alls 54 á LM2012 (26% sýndra kynbótahrossa á LM, sjá fylgigögn um hlutdeild flokka á LM). Næst stærsti flokkurinn á LM2012 var 4v. hryssur alls 35 (17% hlutdeild). Mætti e.t.v. hækka lágmörk fyrir næsta LM í flokki 5v. hryssna? Sjónarmið í þessu máli m.a.:

-          Einföld og jöfn skipting milli allra aldursflokka þýðir 12,5% hlutdeild hvers flokks.

-          Þeir flokkar sem víkja mest frá hnífjafnri skiptingu á síðasta LM eru: 5v. hryssur (+13,5%, þ.e. umfram 12,5% og alls 26%), 4v. hryssur (+4,5% alls 17%),  7v. og eldri hryssur (-7,5% alls 5%), 4v. hestar (-5,5% alls 7%), 7v. og eldri hestar (-5,5% alls 7%).

-          E.t.v. endurspeglar núverandi hlutdeild flokka á LM að nokkru leyti það sem áhorf-endur/ræktendur almennt helst vilja sjá á kynbótabrautinni; þ.e. ungu hrossin og vonarstjörnur framtíðar. Að þessu leyti er því ekki óeðlilegt að kúrvan þynnist út til endanna, í flokkum elstu hrossa – sem jafnframt eiga mörg hver kost á að koma fram í keppnisgreinum mótanna.

    Hópurinn er áfram um að staðla og huga betur að starfi þula í dómi á kynbótasýningum LM. Fram komin rök því til stuðnings:

-          Yfrið nóg ætti að vera að koma upplýsingum á framfæri á tveimur tungumálum (íslenska/enska). Sé óskað fleiri tungumála verði slíkt að vinnast t.d. með sérstakri útsendingartíðni í útvarpi.

-          Sífelld síbylja þula þreytir og truflar upplifun áhorfenda og starf sýnenda.

-          Gæta verður sérstaklega að því að kynningar og orðaval þula sé svo hlutlaust sem verða má í dómi; þ.e. að einu sé ekki hampað á kostnað annars á grunni staðkunnug-leika og/eða smekks þular.

    Kynning hrossa sem ekki ná verðlaunasætum á LM. Ýmsar skoðanir eru uppi í hópnum, allt frá því að frumraunin 2012 hafi verið algerlega mislukkuð yfir í að hugmyndin sé góðra gjalda verð og þörf en þurfi frekari útfærslu. Nokkur sjónarmið í hópnum varðandi kynningaratriði:

-          Tryggja þarf að mæting hrossa sé góð og undantekningalaus nema gildar ástæður komi til. Nefndin telur sjálfsagt að viðburðinum sé sýnd tilhlýðileg virðing.  Þekkt þátt-taka og mæting er nauðsyn svo að skipulag og framkvæmd geti gengið sem skyldi og dýrmætur tími á LM fari ekki forgörðum eða megi teljast illa nýttur.

-          Áhorf var of lítið og framkvæmd of laus í reipum; einkum vegna óvissrar mætingar.

-          Nauðsynlegt að skipulag, uppsetning (hollaröð) viðburðarins sé hlutaðeigandi aðgengileg í tíma á mótsstað.

-          Sum hross sýndu á sér nýjar og spennandi hliðar á hringnum sem áhugavert var fyrir áhorfendur og mögulega kaupendur að sjá. E.t.v. ekki riðið undir eins mikilli pressu heldur undirstrikað það besta sem í hrossinu býr ásamt með mýkt og eftirgjöf í stað afkastahraða sem sýndur var í dómi og yfirliti. Hestvænt og frjálslegt form.

-          Huga ber að því í allri skipulagningu að álag á einstök kynbótahross verði ekki of mikið á LM; þ.e. spurningin um hve langt skuli ganga (dómur, yfirlit, kynning + afkvæma-sýningar + ræktunarbússýningar....). Ákvörðun/ábyrgð þó ætíð á hendi knapa /eigenda.

-          Það er tillaga nefndarinnar að skynsamlegt sé að taka kynningu á hverjum flokki og svo verðlaunaveitingu 10 efstu hrossa í beinu framhaldi.

    Það er álit hópsins að sérstök sýning á hrossum með yfirburðaeinkunnir fyrir gang-tegundir sé spennandi sýningarefni á LM (framkvæmt á hring og beinni braut á LM2004).

-          Í ljósi umræðu um fjölda hrossa á LM, álag á einstök hross, og þróun kynningar kynbótahrossa sem ekki eru í verðlaunasætum vaknar hins vegar sú spurning hvort verið sé að bera í bakkafullan lækinn með einum dagskrárlið til viðbótar. Vel er þó hugsanlegt að hross kæmu t.d. aðeins fram í kynningunni eða í sýningu yfirburða-einkunna. Tryggja verður að álag á einstaka gripi verði aldrei óhóflegt.

-           Hópurinn er ekki sammála um útfærslu þessarar leiðar..... eða hvort þetta getur hvoru tveggja verið á sama mótinu; kynning og sýning hrossa með yfirburða-einkunnir.

    Nefndin vekur athygli á því að enginn risaskjár var staðsettur við kynbótabraut á LM2012. Það verði að teljast afturför enda bæti notkun skjánna vel við alla upplýsingamiðlun í brautinni og möguleikum á að skjóta að helstu viðburðum af keppnisvöllum.
    Nefndin telur brýnt og nauðsynlegt að við heilbrigðisskoðun kynbótahrossa séu notaðir örmerkjalesarar til staðfestingar á því að rétt hross mæti til skoðunarinnar.
    Tryggja verður góða upplýsingamiðlun og tengsl milli sýnenda og skipuleggj-enda/framkvæmdaraðila allra á LM.

-          E.t.v. þörf á sérstakri „skrifstofu“/kynningarbás þar sem starfsmenn: taka við afskráningum (yfirlit/kynning), raða saman í holl (yfirlit/kynning), leiðbeina knöpum/eigendum/áhorfendum varðandi tímasetningar og skipulag, sjá til þess að réttar upplýsingar séu stöðugt í loftinu á öllum miðlum. Heilt yfir -  utanumhald.

 

Almenn framkvæmd kynbótasýninga og dóma

    Hópurinn telur mikilvægt að kynbótadómarar séu stöðugt vakandi fyrir grófri reið-mennsku/grófum ábendingum og taki á slíkum málum af festu svo sem leiðari um framkvæmd kynbótadóma mælir fyrir um. Sérstaklega beri að gjalda varhug við tilraunum til skeiðsýninga þar sem skeiðgeta virðist lítil/engin.
    Sú hugmynd fékk góðan byr innan hópsins hvort ekki væri mögulegt að Fengur héldi utan um þær tölur sérstaklega sem breytast á yfirliti? Þ.e. að það komi sérstaklega fram á dómblaði hvaða tölur breytast og hvernig. Hópurinn telur þetta hafa augljóst upplýsinga-gildi fyrir ræktendur og geti t.a.m. unnið nokkuð á móti svo nefndri einkunnasöfnun.
    Nefndin telur að skynsamlegt væri að yfirfara verkferla í dómpalli á yfirlitssýningum til að koma í veg fyrir að „vafasamar“ athugasemdir úr fordómi standi eftir óbreyttar þegar dómar hækka á yfirliti; þ.e. athugasemdir sem eru lýsandi fyrir fyrri einkunn en skjóta skökku við eftir breytingar á yfirliti.

-          Ef sú hugmynd fær brautargengi að allar breytingar á yfirliti komi fram á dómblaði þá minnkar hætta á áðurnefndum mistökum að öllum líkindum. Þá þarf ritari væntanlega að haka sérstaklega við í Feng að um sé að ræða breytingu á yfirliti og þá meiri líkur á að athygli starfsfólks í dómpalli sé vakin á athugasemdum sem ekki styðja fallinn dóm.

    Það er útbreidd skoðun í hópnum að í kynbótadómi, svo sem hann hefur þróast, sé á stundum of fast tekið á smávægilegum hnökrum í útfærslu sýninga, minniháttar taktfeilum  eða öðrum þeim smálegum atriðum sem ekki snerta auðsýnilega getu gripsins eða kynbótagildi. Með öðrum orðum að kynbótadómurinn dragi stundum of mikinn dám af keppni. Ef eðli og geta gripsins sýnir sig þá ættu smávægilegir hnökrar ekki að hafa úrslitaáhrif á dóm.
    Það er almennt skoðun hópsins að breyta þyrfti vinnulagi á yfirlitssýningum á þann veg að hækkanir séu lesnar upp jafnharðan og þær verða til í dómpalli. Af þessu hlytist augljóst hagræði fyrir hest og knapa og gerði yfirlitssýningar einnig áhorfendavænni.
    Það er útbreidd skoðun í hópnum að dómarar verði sífellt að halda vöku sinni gagnvart svo nefndri hraðadýrkun; þ.e. að yfirhraða gangtegunda sé illu heilli of mikið hampað í einkunnum á kostnað taktöryggis, skrefstærðar, svifs (þar sem það á við) og mýktar.

Rætt og reifað af nefnd – án efnislegrar niðurstöðu

    Mikill hugur er innan hópsins á frekari þróun og tilraunastarfsemi með útfærslu og framkvæmd kynbótasýninga; ekki síst eru nokkir nefndarmenn mjög áfram um notkun á hringvelli sem hluta kynbótadóms.  Alltaf verði þó að setja skýr mörk milli tilrauna og gildandi dóma – þar til vankantar hafi verið slípaðir af mögulegum nýjungum.
    Nefndin hvetur eindregið til þess að komið verði á fót sérstökum verkhópi um framkvæmd og framþróun kynbótasýninga. Hópi sem ýtir á og hvetur til tilrauna af ýmsu tagi. Sú skoðun til að hinir stærri haustfundir séu ekki nægilega góður eða virkur vettvangur til að tengja grasrótina við þá sem stýra og stjórna. Í grunninn fram komin ósk um meira og virkara samráð um stefnumörkun og þróun. Meðal hugmynda og mögulegra tilraunaverkefna sem ræddar hafa verið í nefndinni t.d.:

-          Möguleiki á tímamælingu á skeiði í dómi – til stuðnings einkunnagjöf og/eða bara aukins upplýsingagildis? Það má hugsa sér að hæstu einkunnir í skeiði yrðu þá e.t.v. þröskuldseiginleikar; þ.e. að hæstu tölur falli ekki nema viðunandi hraði sé staðfestur með tímatöku?

-          Fastur tími á hross í dómi í stað ferðafjölda?

-          Áframhaldandi tilraunir með notkun hringvalla ásamt með beinni braut í kynbóta-dómi. Fróðlegt að sjá hvað er hægt að sækja í slíkt fyrirkomulag (kostir / gallar).

-          Allútbreidd skoðun í hópnum að dómarar ættu að dæma hver í sínu lagi – fremur en þrír saman í hópi. Hugsanlega þar gott dæmi um form/nýbreytni sem þyrfti að prófa hlutlaust til að sjá betur hvað þar er að sækja – ef eitthvað? Er slíkt form líklegt til að bæta enn dómstörfin? Gæfi slík sundurliðun knapanum e.t.v. meiri upplýsingar um hvar hann stendur og hvar líklegur til að geta hækkað sig? Er slíkt form tefjandi fyrir gang sýningar o.s.frv. o.s.frv.?

-          Er réttleikadómurinn óþarfur eða ef til vill á villigötum m.t.t. reynslu manna af ágripum? Væri mögulegt að framkvæma „réttari“ réttleikadóm, sé á annað borð ástæða til að dæma hann, á hlaupabretti við algerlega staðlaðar aðstæður?

-          Nefndin er á einu máli varðandi nauðsyn þess að ná betra mati á eiginleikann vilji/geðslag. Leita þurfi allra leiða til að þróa aðferðir sem gætu fært okkur sterkari gögn og markvissari um þennan gríðarlega mikilvæga þátt ræktunarstarfsins.

-          Það er skoðun sumra nefndarmanna að vægi eiginleikans, vilji/geðslag, sé enn allt of hátt (þrátt fyrir nýlega lækkun) – miðað við hvernig til tekst að höndla þennan þátt í dómi. Ef betri nálgun og mat næðist á eiginleikann mætti hins vegar gjarna hækka vægi hans á ný.

    Sú skoðun er útbreidd í hópnum að kynbótadómur sé ekki lengur sú gæðavottun sem áður var – nú sé meira vísað til árangurs í keppni; ekki síst íþróttakeppni. Er ástæða til að reyna að snúa þeirri þróun við og/eða segir það einfaldlega sanna sögu um hver hinn raunverulega virki hópur kaupenda er – kaupendahópur mögulegra keppnishrossa?
   
Aðsókn að landsmótum rædd og mögulega neikvæð áhrif beinna útsendinga; neikvæð áhrif deilna um staðarval.
    Væri skynsamlegt að leyfa byggingardómi 5-6v. hrossa að standa, kjósi eigandi svo – þó þau komi aftur eldri á braut? Spurning um tímasparnað og traust á eldri niðurstöðum. Hér er sama hugsun að baki og þegar opnað var á að leyfa byggingardómum úr fullnaðardómi að standa sumarlangt.
   
Er ástæða til að huga að því að sleppa alveg yfirlitsdómi? Spara tíma og peninga og gera kynbótadómana mögulega „beinskeyttari“; þ.e. að hross eigi að geta sýnt getu sýna í einum dómi. Slík breyting myndi enn fremur væntanlega útrýma svo nefndri einkunna-söfnun en þá er t.d. átt við hross sem sýnd eru sem klárhross í dómi en svo opnað á skeiðeinkunn á yfirliti.
   
Nefndin er nokkuð sammála um að 8 ferðir fyrir dómi er fullknappt oft á tíðum; samanber reynslu af LM2012.
   
Hópurinn veltir fyrir sér hvort skynsamlegt væri að gera hljóðupptökubúnað við kynbóta-brautir að staðalbúnaði við kynbótasýningar. Sem þá varpar hljóði/takti beint inn í dómpall.
   
Nefndin er mjög áfram um bætt vinnuumhverfi og vinnuramma kynbótadómara. Vísað er til þarfar á bættum skilyrðum og aðbúnaði í dómpöllum. Umræða fór fram um langa vinnudaga og álag (óhóflegt?) á dómara, ekki síst á LM. Er e.t.v. æskilegt að reyna að þoka hefðbundnum vinnudegi á kynbótasýningum meira í átt að 8-9 stunda vinnu? 
 
fhb.is