Áverkar á kynbótahrossum á árinu 2012

25.10.2012 - 08:38
Áverkar á kynbótahrossum úr sýningum á Íslandi árið 2012 voru í 21,5% tilvika, 18,9% árið 2011; 18,2% árið 2010 og 12,3% árið 2009. Því miður virðist okkur því lítið miða í þá átt að draga úr áverkum og áleitin spurning er til hvaða ráða íslenskir hestamenn vilja grípa.
 
Vonandi koma fram málefnalegar tillögur þar að lútandi á haustfundum hestamanna.
 
Alls sýndu 44 knapar 10 sýningar eða fleiri á árinu af þeim voru sautján með áverka í 25,0% sýninga eða meira. Þessum sautján aðilum hefur nú verið sent bréf. Tilgangur bréfsins er að vekja athygli umræddra knapa á að þeir voru með fleiri áverkaskráningar heldur en megin þorri knapa í kynbótasýningum. Annar tilgangur bréfsins er að stuðla að hestvænni sýningum.
 
Sá hestur verður að öllu jöfnu að teljast betri sem skilar topp árangri og kemur að auki heill úr braut. Betri knapi í þessu tilliti hlýtur einnig að vera sá knapi sem nær topp árangri án þess að gengið sé nærri heilbrigði hestsins.
Eftirtaldir níu knapar náðu þeim árangri að vera með fæsta áverka af þeim sem sýndu 10 sýningar eða fleiri á Íslandi á árinu.
 
1. Anna Sigríður Valdimarsdóttir, 11 sýningar, 0 áverkar, hlutfall 0,0%
2. Benedikt Þór Kristjánsson, 11 sýningar, 1 áverki, hlutfall 9,1%
3. Gísli Gíslason, 28 sýningar, 0 áverkar, hlutfall 0,0%
4. Lena Zielinski, 21 sýning, 1 áverki, hlutfall 4,8%
5. Líney María Hjálmarsdóttir, 13 sýningar, 1 áverki, hlutfall 7,7%
6. Olil Amble, 12 sýningar, 0 áverkar, hlutfall 0,0%
7. Steingrímur Sigurðsson, 11 sýningar, 1 áverki, hlutfall 9,1%
8. Þorvaldur Árni Þorvaldsson, 29 sýningar, 2 áverkar, hlutfall 6,9%
9. Þórarinn Eymundsson, 16 sýningar, 1 áverki, hlutfall 6,3%

f.h. Fagráðs í hrossarækt.
Guðlaugur V. Antonsson
Hrossaræktarráðunautur BÍ.