Eitt það furðulegasta sem birst hefur í langan tíma

Stóðhestarnir passa sitt stóð

20.03.2013 - 13:17
Í rannsókn á hegðun stóðhesta í hálfvilltu stóði á Íslandi kom í ljós að stóðhestar verja marktækt minni tíma í beit en önnur hross.
 
Einnig að stóðhestarnir sem rannsakaðir voru komu í veg fyrir samskipti á milli einstaklinga frá mismunandi hópum með því að smala hópmeðlimum sínum saman.
 
Rannsóknin var birt í tímaritinu International Journal of Zoology á síðasta ári og greint er frá helstu niðurstöðum í ársskýrslu Veiðimálastofnunar.

Hrossahjörð með fjórum hrossahópum, sem hver innihélt stóðhest, hryssur með folaldi ásamt tryppum var rannsökuð í samtals 316 klst í stórri girðingu (215ha) á Íslandi í maí 2007.

Samskipti á milli stóðhesta voru rannsökuð, ásamt tímanotkun þeirra og heimasvæði hópanna.

Einum stóðhesti, ásamt níu hryssum var einnig bætt við hjörðina til þess að rannsaka viðbrögð stóðhestanna sem fyrir voru í hjörðinni.

Stóðhestarnir vörðu marktækt minni tíma á beit og í varðstöðu heldur en önnur hross. Heimasvæðin sköruðust, en hóparnir blönduðu sér aldrei. Stóðhestarnir komu í veg fyrir samskipti á milli einstaklinga frá mismunandi hópum með því að smala hópmeðlimum sínum saman. Flest samskipti á milli stóðhesta voru friðsamleg. Hinsvegar voru samskipti stóðhestana, sem voru heimastaddir í girðingunni, við stóðhestinn sem hefði verið bætt við bæði tíðari og árásargjarnari heldur en á milli hinna stóðhestanna.

Í greininni var sýnt fram á að fjórir stóðhestahópar geta skipt á milli sín hólfi á friðsamlegan hátt. Félagskerfið sem myndast virðist halda árásartíðni niðri, bæði innan hópa og á milli hópana i hólfinu.

Höfundar hvetja hestaeigendur til þess að velta fyrir sér kosti við að halda hross í stórum hópum, vegna lægri árásartíðni og vegna þess að það gefur ungum hrossum möguleika á að þroskast eðlilega, bæði líkamlega og félagslega, segir m.a. í samantektinni í ársskýrslu Veiðimálastofnunar.
 
mbl.is