Kynbótasýningar 2016 og val kynbótahrossa á LM 2016

Mánuður í fyrstu kynbótasýningu ársins

15.04.2016 - 09:25
 Nú er búið að stilla upp áætlun fyrir kynbótasýningar árið 2016.  Ákveðið hefur verið að stilla ekki upp sýningum þar sem tvö dómaragengi eru að störfum en þörf hefur verið á því á suðvesturhorni landsins til að anna eftirspurn.
 
Þess í stað verður boðið upp á sýningar á fleiri sýningarsvæðum á sama tíma.
 
Sýningaáætlun 2016:
 
• 17.05 - 20.05 Hafnarfjörður
• 23.05 - 27.05 Eyjafjörður
• 25.05 - 27.05 Fljótsdalshérað
• 23.05 - 27.05 Selfoss
• 30.05 - 03.06 Borgarfjörður
• 30.05 - 10.06 Sprettur
• 30.05 - 10.06 Gaddstaðaflatir
• 06.06 - 10.06 Skagafjörður
 
• 27.06 - 03.07 Landsmót að Hólum
 
• 25.07 - 29.07 Miðsumarssýning Skagafjörður
• 25.07 - 29.07 Miðsumarssýning Selfoss
 
• 15.08 - 19.08 Síðsumarssýning Gaddstaðaflatir
• 15.08 - 19.08 Síðsumarssýning Borgarfjörður
• 15.08 - 19.08 Síðsumarssýning Eyjafjörður
 
Landsmót verður haldið að Hólum í Hjaltadal í ár. Að undangenginni umræðu í haust hefur fagráð í hrossarækt ákveðið að hverfa frá einkunnalágmörkum sem hafa ákvarðað þátttökurétt kynbótahrossa á undanförnum mótum.
 
Þess í stað verður ákveðinn fjöldi efstu hrossa sem vinnur sér þátttökurétt á mótinu og miðað er við að hafa 165 kynbótahross á mótinu. Fjöldann í hverjum flokki má sjá í töflu hér að neðan. Til að auðvelda bestu klárhrossum landsins að komast inn á mótið verður 10 stigum bætt við aðaleinkunn klárhrossa í sætisröðun hrossa inn á mótið.
 
Þetta er í raun sama leið og var farin fyrir síðasta landsmót þegar lágmörk inn á það mót voru 10 stigum lægri fyrir klárhross en alhliða hross. Þegar kynbótasýningar byrja næsta vor verður birtur stöðulisti í WorldFeng sem sýnir hvaða hross eru inni á mótinu hverju sinni. Ef fjöldi hrossa í hverjum flokki er skoðaður í töflunni má sjá að hlutfall yngstu hrossanna (fjögurra og fimm vetra) er hærra en á síðasta móti en mest er fækkun hrossa í elstu flokkum.
 
Til dæmis heldur fjöldi fjögurra vetra hrossa sér nánast en á síðasta móti voru 22 fjögurra vetra hryssur og fjögurra vetra hestar voru 16. Ef fleiri en eitt hross eru jöfn í síðasta sæti inn á mótið (til dæmis fleiri en ein hryssa í 15. sæti í flokki 7 vetra og eldri hryssna) þá er þeim öllum heimil þátttaka á mótinu.
 
Eins verða eigendur hrossa sem vinna sér þátttökurétt á mótinu en ætla sér ekki að mæta með þau af einhverjum ástæðum beðnir um að láta vita fyrir ákveðna dagsetningu, þannig að hægt sé að bjóða hrossum sem eru neðar á listanum þátttöku á mótinu.
 
Þá er hugmyndin að hafa úrvalssýningu kynbótahrossa á mótinu og bjóða þeim hrossum sem vinna sér ekki þátttökurétt á mótinu en búa yfir sérstökum úrvalseiginleikum þátttöku í þeirri sýningu. Nánari útfærsla á þessari hugmynd verður kynnt síðar.
 
Flokkur Fjöldi
7v. og eldri hryssur: 15
6v. hryssur: 30
5v. hryssur: 35
4v. hryssur: 20
4v. hestar: 15
5v. Hestar: 20
6v. Hestar: 20
7v. og eldri hestar: 10
Samtals: 165
 
Frétt / RML.is