Að velja sér kynbótadómara

26.04.2016 - 18:25
 Val er eitt af því allra mikilvægasta í lífinu, stundum erfitt og stundum einfalt. Það er gott að geta verið í þeirri stöðu að geta valið, valið um hvort við viljum fisk eða kjöt í kvöldmat eða valið okkur hvað við horfum á í sjónvarpinu. Í hrossarækt notum við þetta undratól til að velja okkur stóðhesta sem dæmi og því fylgir mikil hestapólítík, hvaða hestur er bestur og afhverju, hver hentar best þeirri meri sem halda á undir. 
 
Þetta eru oft skemmtilegar pælingar og á endanum þá er um eitt val að ræða og stendur sá og fellur með ákvörðuninni hvort rétt hafi verið valið. Ég vill að allir geti nýtt sér að velja sem dæmi forseta, stjórnmálaflokk nú eða hvar þú villt sýna kynbótahrossið þitt, þar getur þú valið þér stað sem hentar þér best. Það eru 11 kynbótasýningar í boði hér á landi nú í sumar og þeir sem ætla að sýna eða láta sýna hross sín hafa val um hvar, það getur engin sagt þér hvar þú mátt og mátt ekki sýna hross þitt, þetta er eingöngu spurning hvort þú sért nægilega snöggur að tryggja þér pláss á viðkomandi sýningu og sama gengur yfir alla, mjög svo gott fyrirkomulag sem allir ættu að fagna. 
 
Það er þó eitt sem skekkir sanngirnisstöðulinn það er þegar sumir geta valið sér kynbótadómara. Fyrirkomulagið er jú víst þannig að dómarar eru settir á fyrirfram ákveðnar sýningar og nöfn þeirra birt á Worldfeng öllum til upplýsingar. Er það ekki tímaskekkja að nöfn dómara séu upplýst fyrir sýningar? Er ekki meira jafnræði í því að kynbótasýningar séu auglýstar án dómara og þegar skráningu lýkur og búið að loka sýningu þá séu settir dómarar á viðkomandi sýningu. 
 
Eitt af því sem ég vill ekki hafa VAL um, það er hvaða  kynbótadómarar dæma mín hross, það skekkir að mínu mati heildarútkomu allra sem sýna hross. Starf kynbótadómara er mjög svo vandmeðfarið og  er örugglega ekki alltaf auðvelt að smella tölum á mjög svo mismunandi hross. En eitt ætti þó að hafa í huga að kynbótadómarar dæma eftir ákveðnum stöðlum og ætti þess vegna að vera þó nokkuð samræmi hjá dómurum, þess vegna ætti ekki að skipta máli hverja dæma. 
 
Það vekur upp spurningar þegar listi yfir hross og sýnendur er skoðaður, sem dæmi fyrri vika í Spetti. Þar eru hrossaræktendur á listanum sem búa á suðurlandi og ætti að vera mun hentugara að fara með hross sín á Hellu eða Selfoss. Vallaraðstæður geta þó haft eitthvað með þetta að segja sem er vel, en eigum við ekki að finna út hver orsökin eru fyrir þessum mikla áhuga á sýningunni í Spretti og sannreyna að þetta sé ekki útaf dómurum og óska eftir því að dómarar sem settir eru á fyrrnefnda sýningu í Spretti verða settir yfir sýningu á Selfossi sem dæmi, nú ef að allir myndu þá færa hross sín frá Spretti yfir á Selfoss þá höfum við svarið.
 
Daníel Ben