Efsta-Sel Ræktunarbú ársins hjá Hrossaræktarfélagi Spretts

28.11.2016 - 13:43
  Aðalfundur Hrossaræktarfélags Spretts 2016 fór fram í Arnarfelli veislusal Samskipahallarinnar í Spretti, miðvikudaginn 16. nóvember.
 
Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf sem gengu fljótt og vel, að þeim loknum voru veittar viðurkenningar til þeirra félagsmanna sem náðu athyglisverðum árangri á árinu. Félagsmönnum fjölgar stöðugt og eru nú um 70, þeir verða jafnframt öflugri í ræktunarstarfinu með hverju árinu og sýndu samtals rétt um 40 hross í ár.
 
 
Á fundinum var í fyrsta sinn veittur nýr farandgripur sem sú ræktun félagsmanns hlýtur sem nær bestum árangri í heild. Við ákvörðun vinnanda eru reglur fagráðs notaðar nema hvað að lágmarksfjöldi sýndra hrossa eru tvö en ekki fjögur.
 
Ræktunarbú Spretts
Tilnefnd ræktunarbú hjá Hrossaræktarfélgi Spretts á árinu 2016 voru þessi í stafrófsröð:
 
   * Efsta-Sel, Daníel Jónsson og Hilmar 
     Sæmundsson.
   * Flagbjarnarholt, Sveinbjörn Bragason.
   * Fornusandar, Tryggvi Geirsson.
   * Hagi, Hannes Hjartarson.
   * Hross kennd við Reykjavík ræktuð af Herði Jónssyni.
   * Ytra-Dalsgerði, Kristinn Hugason.
   * Vesturkot, Finnur Ingólfsson.
   * Votamýri 2, Gunnar Már Þórðarson og Kolbrún Björnsdóttir.
 
Ræktunarbú Hrossaræktarfélags Spretts 2016 er:
 
Efsta – Sel Daníel Jónsson og Hilmar Sæmundsson
Úr ræktun þeirra félaga voru sýnd 6 hross á árinu. Hryssurnar: Fía, Hekla, Lukka og Vala frá Efsta-Seli og stóðhestarnir Árblakkur frá Laugasteini og Appollo frá Haukholtum sem Daníel er ræktandi að ásamt sitt hvorum öðrum manninum. Fía 6 vetra hlaut 8,32 hér í Spretti og kom einnig fram á LM á Hólum síðar um sumarið, Hekla 8 vetra var sýnd í Þýskalandi og hlaut 8,26 út, Lukka 4 vetra var sýnd með glæsibrag á LM á Hólum og stendur 3. efst í flokki 4 vetra hryssna nú að sýningarárinu loknu með 8,40 fyrir sköpulag, 8,32 fyrir kosti og 8,35 út. Vala 6 vetra var svo sýnd hér í Spretti og hlaut 8,31 út. Stóðhesturinn Árblakkur frá Laugasteini 5 vetra hlaut svo 8,45 í aðaleinkunn á LM á Hólum og Appollo 4 vetra 8,26 hér í Spretti.
Hér má sjá video af ræktunarbúi ársins 2016 : https://vimeo.com/191865692
 
Þá voru veittar viðurkenningar fyrir einstök hross og farandgripurinn kynbótahross ársins en það er raun sami gripur og áður var veittur ræktunarmanni Spretts og gildir sú regla að hann er veittur fyrir hæsta hross félagsmanns og einungis einu sinni fyrir hvert hross fyrir sig.
 
Viðurkenningarnar voru veittar fyrir eftirtalin hross:
 
Stóðhestar
4 vetra.
Apollo frá Haukholtum, ræktaður af Daníel Jónssyni og Magnúsi Helga Loftssyni en í eigu Daníels og Hilmars Sæmundssonar. Hesturinn er sonur Arions frá Eystra - Fróðholti og fyrstu verðlauna Hrynjandadótturinni: Eldingu frá Haukholtum. Hann var sýndur hér í Spretti og hlaut 8,26 í aðaleinkunn; 8,24 fyrir sköpulag og 8,27 fyrir kosti.
Einnig voru tilnefndir:
Seifur frá Neðra-Seli, úr ræktun og í eigu Garðars Hólm Birgissonar og Birgis Hólm Ólafssonar. Seifur er undan Orra frá Þúfu og Sunnu frá Lundi sem er fyrstu verðlauna dóttir Gusts frá Hóli. Seifur hlaut í aðaleikunn 7,89; 8,02 fyrir sköpulag og 7,80 fyrir kosti. Tangó frá Fornusöndum, ræktandi og eigandi Tryggvi Geirsson. Tangó er undan Brjáni frá Blesastöðum 1a og Svörtu-Nótt frá Fornusöndum, fyrstu verðlauna dóttir Adams frá Ásmundarstöðum. Tangó hlaut 7,72 í aðaleinkunn; 7,83 fyrir sköpulag og 7,64 fyrir kosti.
 
5 vetra
Árblakkur frá Laugasteini, ræktaður af Ármanni Gunnarssyni og Daníel Jónssyni og er í þeirra eigu. Árblakkur er undan Ágústínusi frá Melaleiti og Roða - Múla dótturinni Áróru frá Laugasteini. Árblakkur var sýndur hér í Spretti og á Lm á Hólum þar sem hann hlaut 8,45 í aðaleinkunn; 8,09 fyrir sköpulag og 8,69 fyrir kosti.
Í öðru sæti var Baltasar frá Haga, ræktaður af og í eigu Hannesar Hjartarsonar, hann er undan Ágústínusi frá Melaleiti og Bliku frá Haga, fyrstu verðlauna dóttur Roða frá Múla. Baltasar var sýndur hér í Spretti og á Gaddstaðaflötum upp á 8,23 í aðaleinkunn; 8,20 fyrir sköpulag og 8,25 fyrir kosti.
 
6 vetra
Ljósvaki frá Valstrýtu, ræktaður af og í eigu Guðjóns Árnasonar, sonur Hákonar frá Ragnheiðarstöðum og Oddsdótturinnar Skyldu frá Hnjúkahlíð hvers amma er sú merka hryssa Ör frá Akureyri, úr ræktun Gests Jónssonar á tanganum. Ljósvaki var sýndur á Gaddstaðaflötum og á Lm á Hólum þar sem hann skeiðlaus hesturinn hlaut 8,54 í aðaleinkunn; 8,22 fyrir sköpulag og 8,75 fyrir kosti!
Í öðru sæti var Silfurtoppur frá Vesturkoti, ræktaður af Finni Ingólfssyni en í eigu Huldu Finnsdóttur, er hann undan Dugi frá Þúfu og Skelfingu frá Hofsstaðaseli. Silfurtoppur var sýndur hér í Spretti og hlaut 7,85 í aðaleinkunn; 8,15fyrir sköpulag og 7,64 fyrir kosti.
 
7 vetra og eldri
Hrafn frá Efri-Rauðalæk, ræktaður af og í eigu Hjalta Halldórssonar og Petrínu Sigurðardóttur. Hrafn er undan Markúsi frá Langholtsparti og Hind frá Vatnsleysu, ósýndri. Hrafn var sýndur hér í Spretti og á Lm á Hólum. Einkunnin sem Hrafn hlaut á vorsýningunni í Spretti setur hann efstan hrossa í dómi í Íslandshestaheiminum þetta árið: Aðaleinkunn 8,84; sköpulag 8,55 og kostir 9,03.
Í öðru sæti var Galdur frá Reykjavík, ræktaður af Herði Jónssyni og Sigríði Jónsdóttur en í eigu Sigríðar. Galdur er undan Seiði frá Flugumýri 2 og fyrstu verðlauna hryssunni Snerru frá Reykjavík. Galdur hlaut 8,45 á síðsumarssýningunni á Gaddstaðaflötum; 8,33 fyrir sköpulag og 8,53 fyrir kosti.
Í þriðja sæti var Mímir frá Hamrahóli úr ræktun Guðjóns Tómassonar og Valgerðar Sveinsdóttur, hann er undan Kráki frá Blesastöðum 1a og Adamsdótturinni og fyrstu verðlauna gæðahryssunni Ósk frá Hamrahóli, nú í eigu Flosa Ólafssonar og Þórðar Þorgeirssonar skv. WF en hesturinn er nú í Þýskalandi þar sem hann var sýndur upp á 8,40 í aðaleinkunn; 8,22 fyrir sköpulag og 8,53 fyrir kosti. Eigendur Hrafns frá Efri-Rauðalæk hlutu að auki farandbikarinn fyrir kynbótahross Spretts 2016.
 
Hryssur
4 vetra
Efst í þessum flokki var Lukka frá Efsta-Seli, ræktendur og eigendur Daníel Jónsson og Hilmar Sæmundsson. Lukka er dóttir Orra frá Þúfu og stórgæðingsins Ladyar frá Neðra-Seli dóttur Ófeigs frá Flugumýri. Lukka var sýnd hér í Spretti og á Lm á Hólum, þar sem hún hlaut 8,35 í aðaleinkunn; 8,40 fyrir sköpulag og 8,32 fyrir kosti.
Í öðru sæti var Ísey frá Ytra-Dalsgerði, ræktendur Hugi Kristinsson og Kristinn Hugason, eigandi Kristinn Hugason. Ísey er dóttir Króks frá Ytra-Dalsgerði og 1. verðlauna hryssunnar Urðar frá sama stað, dóttur Gusts frá Hóli. Ísey var sýnd hér í Spretti og hlaut 8,04 í aðaleinkunn; 8,21 fyrir sköpulag og 7,92 fyrir kosti.
 
5 vetra
Efst í þessum flokki var Freisting frá Flagbjarnarholti, ræktandi og eigandi: Sveinbjörn Bragason. Freisting er undan Framherja frá Flagbjarnarholti og Von frá Arnarhóli, ósýndri. Freisting var sýnd hér í Spretti á á Lm á Hólum þar sem hún hlaut 8,33 í aðaleinkunn, 8,48 fyrir sköpulag og 8,23 fyrir kosti.
Í öðru sæti var Björk frá Barkarstöðum, ræktandi Sveinbjörn Sveinbjörnsson yngri sem er eigandi hryssunnar ásamt með Petru Björk Mogensen. Björk er undan Fláka frá Blesastöðum 1a og 1. verðlauna hryssunni Væntingu frá Hruna dóttur Arons frá Strandarhöfði. Björk var sýnd hér í Spretti sem og á Lm á Hólum og hlaut 8,16 í aðaleinkunn í bæði skiptin; 8,26 fyrir sköpulag og 8,10 fyrir kosti hér í Spretti en 8,09 fyrir norðan.
Í þriðja sæti var Gló frá Votumýri 2, ræktandi Gunnar Már Þórðarson, eigendur Gunnar Már, Ellen María Gunnarsdóttir og Kolbrún Björnsdóttir. Gló er undan Kiljani frá Steinnesi og Önn frá Ketilsstöðum, 1. verðlauna hryssu sem er skyldleikaræktuð út af Oddi frá Selfossi. Gló var sýnd hér í Spretti og hlaut 8,09. 8,22 fyrir sköpulag og 8,00 fyrir kosti.
 
6 vetra
Efst í flokknum stendur Fía frá Efsta-Seli, ræktuð af Daníel Jónssyni og Hilmari Sæmundssyni en eigandi er Þorleifur Sigfússon auk Daníels. Fía er undan Óðni frá Eystra-Fróðholti og Sál frá Votmúla 1 sem er 1. verðlauna hryssa dóttir Baldurs frá Bakka. Fía hlaut hér í Spretti 8,32 í aðaleinkunn; 8,29 fyrir sköpulag og 8,33 fyrir kosti. Hún kom einnig fyrir dóm á Lm á Hólum í sumar.
Í öðru sæti var Vala frá Efsta-Seli, ræktuð af Daníel Jónssyni og Hilmari Sæmundssyni en í eigu Gunnars Más Þórðarsonar og Kolbrúnar Björnsdóttur. Vala er undan Dugi frá Þúfu og Óperu, ósýndri Kolskeggs Kjarnholta-dóttur, frá Gýgjarhóli. Vala var sýnd hér í Spretti og hlaut 8,31 í aðaleinkunn, 8,33 fyrir sköpulag og 8,30 fyrir kosti.
Í þriðja sæti var Hátíð frá Vesturkoti, ræktandi Finnur ingólfsson en eigandi Hulda Finnsdóttir. Hátíð er undan Þey frá Akranesi og fyrstu verðlauna hryssunni Heklu frá Miðsitju, dóttur Hágangs frá Narfastöðum. Hátíð hlaut 8,22 í aðaleinkunn hér í Spretti; 8,18 fyrir sköpulag og 8,25 fyrir kosti.
 
7 VETRA HRYSSUR
Efst í flokknum var Stáss frá Ytra-Dalsgerði, ræktuð af Huga Kristinssyni og Kristni Hugasyni, eigandi Kristinn Hugason. Stáss er undan Þokka frá Kýrholti og fyrstu verðlaunahryssunni og afreksvekringnum Lútu frá Ytra-Dalsgerði, Stígsdóttur og er Stáss þannig skyldleikaræktuð út af Náttfara frá Ytra-Dalsgerði. Stáss hlaut 8,31 í aðaleinkunn hér í Spretti; 8,02 fyrir sköpulag og 8,50 fyrir kosti.
Í öðru sæti var Hekla frá Efsta-Seli, ræktuð af Hilmari Sæmundsyni en í eigu Marco Gutmayer í Þýskalandi og þar sýnd. Hekla er undan Hróðri frá Refsstöðum og 1. verðlauna hryssunni Söru frá Horni. Hekla hlaut 8,26 í aðaleinkunn; 8,42 fyrir sköpulag og 8,15 fyrir kosti.
Í þriðja sæti var Sefja frá Ytra-Dalsgerði, ræktuð af Huga Kristinssyni og Kristni Hugasyni, eigandi Kristinn Hugason. Sefja er undan Stála frá Kjarri og fyrstu verðlauna hryssunni Brák frá Ytra-Dalsgerði dóttur Odds frá Selfossi. Sefja hlaut 8,17 í aðaleinkunn hér í Spretti; 8,26 fyrir sköpulag og 8,12 fyrir kosti.
 
 
 
Hrossaræktarfélag Spretts óskar öllum hæutaðeigandi innilega til hamingju en útkoman á árinu er sannarlega glæsileg, auk þess sem þegar er fram komið má benda á að félagsmenn lönduðu þremur tíum á árinu. Ljósvaki frá Valstrýtu hlaut 10,0 fyrir tölt og stökk sem er í raun einstæð samsetning og er að auki ævalangt síðan síðast var gefin tía fyrir stökk og Stáss frá Ytra-Dalsgerði hlaut tíu fyrir skeið.
Hér má sja video af efstu kynbótahrossum hjá Spretti 2016 : https://vimeo.com/193267868
 
Frétt. sprettarar.is
 
Hrossaræktarfélag Spretts