Landsliðsfundurinn tókst afar vel

15.03.2017 - 10:47
  Á mánudagskvöldið hélt landsliðsnefnd LH metnaðarfullan fræðslufund í veislusal Samskipahallarinnar í Spretti. Farið var yfir lykil að vali landsliðsins sem halda mun á HM í Hollandi í sumar, nýir samstarfsaðilar kynntir til leiks og að lokum flutti Heimir Hallgrímsson magnað erindi. 
 
Landsliðsnefnd LH er skipuð þaulreyndu fólki sem leggur mikið á sig í sjálfboðavinnu  við fjáröflun, skipulag og undirbúning HM.
 
Í landsliðsnefnd LH eru: 
 
Pjetur N. Pjetursson formaður, Benedikt Benediktsson, Haukur Baldvinsson, Helgi Jón Harðarson, Jóna Dís Bragadóttir, Magnús Benediktsson, Páll Bragi Hólmarsson liðsstjóri, Sigurbjörn Bárðarson og Þórir Örn Grétarsson.
 
Tveir nýir samstarfsaðilar LH voru kynntir til leiks við þetta tilefni, það var fjarskiptafyrirtækið HRINGDU og BLÁA LÓNIÐ. Síðan var samningur við LÍFLAND endurnýjaður svo það var sérlega ánægjulegt að innsigla þetta samstarf allt og skrifa undir þrjá nýja samninga á mánudaginn. 
 
Samstarfsaðilar LH eru nú: 
 
Ásbjörn Ólafsson
Bláa Lónið
Hringdu
Icelandair Cargo
Lífland
Úrval Útsýn
VÍS
 
Liðið sem halda mun til Hollands í sumar verður þannig skipað:
 
7 fullorðnir
5 ungmenni
6 kynbótahross
4 heimsmeistarar
= 22
 
Liðsstjórinn kynnti lykil að vali liðsins og þá þjálfara og dýralækna sem fara með liðinu út. Þjálfarar verða Elvar Einarsson, Hugrún Jóhannsdóttir og Olil Amble. Dýralæknir liðsins verður Helgi Sigurðsson. 
 
Síðasta atriðið á dagskrá fundarins var fyrirlestur Heimis Hallgrímssonar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Heimir tók það fram að hann væri ekki sálfræðingur eða félagsfræðingur heldur langaði hann bara að tala um það sem hann hafði upplifað síðasta sumar með landsliðinu. Hann kom með marga frábæra punkta úr starfi þeirra þjálfaranna. 
 
Til dæmis: 
 
Einblína á styrkleika sína, viðurkenna veikleika
Reyna að verða bestir í 6 hlutum af 10 í staðinn fyrir að vera meðalgóðir í öllu
Efla einstaklingana, leyfa öllum að skína, á þann hátt sem þeim líður vel með
Frelsi innan rammans. Fáar reglur en skýrar.
Samheldni; allir eins klæddir, fallega klæddir, gerir menn hluta af hópi sem er sterkur og fallegur og mönnum líður því vel innan hópsins. 
Setja sér markmið og stefna einbeitt að þeim. 
Fundargestir hlustuðu vel á Heimi enda í ljósi árangurs óhætt að gera það. 
http://www.ruv.is/node/1123149