Uppsveitadeildin 2017. Sigurvegarar í tölti og fljúgandi skeiði

02.04.2017 - 07:01
  Fjörið hófst í forkeppninni í tölti þar sem Þórarinn Ragnarsson og Hringur frá Gunnarsstöðum I sigruðu með nokkrum mun, eða 7,63 í einkunn. Matthías Leó Matthíasson og Nanna frá Leirubakka komu þar næst með 7.30 í einkunn. 
 
Þriðja inn í A-úrslit urðu þau Hanne Smidesang og Roði frá Hala með einkunnina 6,93. Síðasta örugga sæti í A-úrslitum féll í skaut Guðjóns Sigurliða Sigurðssonar og Lukku frá Bjarnastöðum með einkunnina 6.77. Efstir inn í B-úrslit urðu Hans Þór Hilmarsson og Bragur frá Túnsbergi með einkunnina 6,63. Rétt þar á eftir voru þeir félagarnir Bjarni Bjarnason og Hnokki frá Þóroddsstöðum með 6,60. Þeir unnu sig báðir upp í A-úrslit.
 
Að lokinni forkeppni hófst fljúgandi skeið. Á rúmum hálftíma runnu 63 skeiðsprettir í gegnum húsið. Þegar yfir lauk kom í ljós að fljótasta parið voru þau Matthías Leó Matthíasson og Blikka frá Þóroddsstöðum með tímann 2,97. Í kjölfarið sigldu Þórarinn Ragnarsson og Funi frá Hofi með sléttar 3 sekúndur. Rétt á eftir komu þau Hans Þór Hilmarsson og Assa frá Bjarnarhöfn á tímanum 3,02. Bjarni Bjarnason og Randver frá Þóroddsstöðum voru 1/100 úr sekúndu á eftir með tímann 3,03 sekúndur. Aðrir keppendur fóru hægar yfir.
 
Þá var komið að stóru stundinni. A-úrslit í tölti að hefjast og sex keppnispör á vellinum.  Bjarni og Hnokki náðu sér ekki á strik og hrepptu 6. sætið með 6.89 í einkunn. Hans Þór og Bragur enduðu í fimmta sæti með 7 í einkunn. Rétt fyrir ofan með 7,06 í einkunn settust í fjórða sætið Guðjón Sigurliði Sigurðsson og Lukka frá Bjarnastöðum. Spennan fór nú að magnast eftir sérdeilis glæsislega töltsýningu. Hanne Smidesang og Roði frá Hala fengu 7,44 í einkunn og hlutu að launum þriðja sætið. Matthías Leó Matthíasson og Nanna frá Leirubakka fengu annað sætið með einkunnina 7.67. Sigurvegarar töltsins í Uppsveitadeildinni 2017 urðu því þeir Þórarinn Ragnarsson og Hringur frá Gunnarsstöðum I með frábæra einkunn, 7,89.
 
Hestamannafélögin í Uppsveitunum Logi, Smári og Trausti fá bestu þakkir fyrir skemmtilega keppni í vetur. Breiddin í keppninni fer sífellt vaxandi og metnaður keppenda er mikill að standa sig sem best. Það sýnir sig að hestar eru að koma betur undirbúnir til keppni og munurinn á milli atvinnumanna og leikmanna hefur dregist saman.
 
Frétt/reidhollin.is