Meistaradeild - Lið Oddhóll / Þjóðólfshagi

28.10.2017 - 10:07
 Lýsi hefur dregið sig úr deildinni en það var elsta liðið í deildinni. Heitir liðið því nú einungis Oddhóll / Þjóðólfshagi. 
 
Liðið er örlítið breytt frá því í fyrra en Sigurður Sigurðarsson, Sigurbjörn Bárðason og Konráð Valur Sveinsson eru enn í liðinu en með þeim verða þau Daníel Jónsson og Berglind Ragnarsdóttir. 
 
Sigurður Sigurðarson, liðstjóri, rekur tamningastöð á Þjóðólfshaga ásamt eiginkonu sinni. Sigurður er fyrsti sigurvegari Meistaradeildarinnar en hann sigraði hana árið 2001 og svo aftur árið 2011. Hann hefur verið nokkrum sinnum verið í íslenska landsliðinu, er heimsmeistari, margfaldur Íslandsmeistari, fyrrum heimsmethafi í 100m skeiði. Hann sigraði B flokk gæðinga á LM2012 á Kjarnorku frá Kálfholti, A flokk gæðinga á LM2012 á Fróða frá Staðartungu og B flokk gæðinga á LM2014 á Loka frá Selfossi en Sigurður hefur sigrað allar hringvallargreinar fullorðina á Landsmóti. Sigurður er gæðingaknapi ársins 2012.
 
Berglind Ragnarsdóttir var í Meistaradeildinni í upphafi en er að koma aftur eftir nokkuð hlé. Hún hefur tvisvar verið í íslenska landsliðinu og meðal annars varð hún heimsmeistari árið 2003 á Bassa frá Möðruvöllum. Berglind er margfaldur Íslandsmeistari og Reykjavíkurmeistari. Hún hefur verið í Vesturlandsdeildinni seinustu 2 árin, unnið þar nokkur mót og liðið hennar vann deildina 2016.
 
Daníel Jónsson er ókrýndur kynbótakóngur landsins og hefur í fjöldamörg ár verið áberandi sem sýningamaður á kynbótahrossum og hampað þar mörgum titlum.  Daníel hefur einnig látið að sér kveða í keppnum, sigraði m.a. A-flokk gæðinga á Landsmótið árið 1994 og hefur tekið þátt í heimsmeistaramótum.
 
Konráð Valur Sveinsson er yngsti keppandinn í deildinni. Hann er margfaldur Íslandsmeistari og tvöfaldur heimsmeistari í skeiðgreinum. Hann varð Heimsmeistari í 250 m. skeiði og 100m. skeiði í Berlín árið 2013 og keppti hann aftur fyrir Íslandshönd í Herning 2015. Hann var Íslandsmeistari í 250m. skeiði í fullorðinsflokki á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu en hann varð einnig Íslandsmeistari í gæðingaskeiði í ungmennaflokki, Íslandsmeistari í 100m. skeiði yngri flokka og sigraði 100m. skeiðið á Landsmóti 2016
 
Sigurbjörn Bárðarson er sá knapi ásamt Árna Birni Pálssyni sem hefur oftast sigrað Meistaradeildina eða þrisvar sinnum, árin 2002, 2009 og 2010. Sigurbjörn hefur unnið flesta titla sem hægt er að vinna í hestaíþróttum ásamt því að vera eini hestamaðurinn sem hefur hampað titlinum íþróttamaður ársins. Sigurbjörn er skeiðknapi ársins 2012.