Opinn fundur um LM2016

25.01.2018 - 13:34
 augardaginn 20. janúar sl. stóð hestamannafélagið Skagfirðingur fyrir opnum fundi í Tjarnarbæ, félagsheimili félagsins, þar sem fjallað var um landsmótið 2016 sem haldið var á Hólum í Hjaltadal.
 
Skapti Steinbjörnsson formaður Skagfirðings setti fund og stýrði. Frummælendur voru Lárus Ástmar Hannesson formaður stjórnar Landsmóts og Landssambands hestamannafélaga sem fór yfir málin frá sjónarhorni LH; Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdarstjóri Landsmótsins 2016 sem kynnti sína skýrslu; og Ingibjörg Sigurðardóttir lektor við ferðamáladeild Háskólans á Hólum sem kynnti niðurstöður alþjóðlegrar könnunar sem gerð var í samfellu við mótið. Að loknum framsögum var boðið upp á súpu og opnað fyrir fyrirspurnir og umræður. 
 
Í máli framsögumanna var samhljómur um að mótið hafi tekist vel og samkvæmt mati gesta var almenn ánægja með mótið. Í umræðum kom fram að það sem hefði einkennt aðdraganda mótsins og starfið á mótinu sjálfu hefði verið góð samvinna og sameiginlegur metnaður hestamanna á svæðinu, stjórnar LH og LM, Hólaskóla, samstarfsaðila og ekki síst Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Þessi góða samvinna hefði verið grunnur að góðu móti þar sem staðið var vel að keppninni og gestir þjónustaðir vel á stórglæsilegu landsmótssvæði. Rúsínan í pylsuendanum hefði verið að Hólaskóla voru færð tvö dómhús/kennslustofur sem gjöf frá velunnurum skólans og hestamennskunnar.
 
lhhestar.is