Þeir allra sterkustu 20. apríl

Mótið er með talsvert breyttu sniði í ár

05.04.2019 - 11:55
 Þeir allar sterkustu, fjáröflunarmót landsliðs Íslands í hestaíþróttum, verður haldið í TM-höllinni í Víðidalnum laugardagskvöldið 20. apríl.
 
 
Mótið er með talsvert breyttu sniði í ár. Landsliðsknapar Íslands í hestaíþróttum mætast í úrslitum í tölti, fjórgangi og fimmgangi, engin forkeppni verður og aðeins 6 knapar ríða úrslit í hverri grein. Einnig verður keppt í flugskeiði í gegnum höllina, knapar úr U21 landsliðshópi LH verða með glæsilegt sýningaratriði og á milli úrslita verður boðið upp á sýningar á úrvalsstóðhestum sem allir eru í pottinum í stóðhestaveltu landsliðsins.
 
Stóðhestaveltan virkar þannig að u.þ.b. 100 stóðhestar eru í pottinum og hver seldur miði gefur toll undir hátt dæmdan stóðhest. Margir af allra vinsælustu stóðhestum landsins eru í pottinum. Miði í stóðhestaveltunni kostar 35.000 kr., girðingagjald er ekki innifalið.
 
Happdrætti landsliðsins er á sínum stað með glæsilegum vinningum, m.a. hnakkur frá Hrímni, og kostar happdrættismiðinn kr. 1000.
 
Mikil stemmning verður í húsinu og boðið verður upp á kótilettuveislu og drykki á sanngjörnu verði.
 
Húsið opnar kl. 18.30 og mótið hefst kl. 20.30. Miðaverð er kr. 3.500.