Daníel Larsen sigraði Uppsveitadeildina 2019

16.04.2019 - 08:53
 Uppsveitadeildinni 2019 lauk á föstudagskvöld með skemmtilegri smalakeppni. Keppni í smala dregur vel fram samspil hests og knapa þar sem lipurð og snerpa þarf að fara saman, ekki bara hjá hestinum heldur ekki síður hjá knapanum.
 
 
Brautin sem sett hafði verið upp var einföld og bauð upp á skemmtileg tilþrif. Byrjað var að á því að ríða í sveigjur á milli stanga sem auðvelt var að fella með snertingu. Þar á eftir þurftu knapar að flytja mjúkan hlut af einni tunnu yfir á aðra. Þá tók við hin snúna æfing að stöðva hestinn og bakka honum út úr þrautinni án þess að snerta leiðarana. Síðasta þrautin reyndi einna mest á knapann, þegar hann þurfti að stíga af baki á jafnvægisslá ganga eftir henni og stíga aftur á bak án þess að stíga niður á gólf. Sumir gerðu sér lítið fyrir og vippuðu sér á bak án þess að nota ístöðin og þeystu síðan á fullri ferð út úr húsinu.
 
Sigurvegari smalans Thelma Dögg Tómasdóttir
Thelma Dögg Tómasdóttir og Taktur frá Torfunesi sigruðu smalakeppnina í Uppsveitadeildinni 2019, en í öðru sæti urðu Daníel Larsen og Elding frá Hvoli. Þriðja sætið féll í skaut Daníels Gunnarssonar og Einingar frá Einhamri 2.
 
Áhorfendur skemmtu sér konunglega yfir tilþrifunum og voru ánægðir með hvað hestar og knapar voru allir liðugir og fimir í þessari keppni.
 
Hér var hraðinn ekki höfuðatriðið því grimmilega var refsað fyrir hver mistök sem gerð voru í brautinni. Fyrir hverja villu var 15 sekúndum bætt við tímann sem tók að ríða brautina og vigtaði það þungt þegar leið á keppnina.
 
Eftir tvær umferðir þar sem besti tíminn að viðbættum refsisekúndum gilti, lá fyrir að Thelma Dögg Tómasdóttir og Taktur frá Torfunesi, úr liði Baldvins og Þorvaldar, og Daníel Larsen og Elding frá Hvoli, úr liði Kílhrauns, voru jöfn í fyrsta og öðru sæti. Í þriðja sæti endaði Daníel Gunnarsson og Eining frá Einhamri 2, úr liði Kílhrauns. Einungis ein sekúnda skildi að fyrstu tvö sætin og það þriðja.
 
Það varð því úr að þau Thelma og Daníel riðu bráðabana til þess að skera úr um hvort þeirra myndi sigra Smalann. Daníel reið á vaðið og fór brautina á sínum besta tíma, en gerði tvenn mistök í leiðinni. Thelma á hinn bóginn fór brautina á örlítið lengri tíma, en gerði einungis ein mistök. Kappið eflaust spilað inní hjá þeim, því bæði náðu besta tímanum í forkeppninni villulaust. Hér kom berlega í ljós hversu grimmt það var að fá refsistig því samanlagt stóð Thelma uppi sem sigurvegari Smalans á betri tíma í heildina en Daníel.
 
Sigurvegari Uppsveitadeildarinnar 2019
Eftir fimm keppnisgreinar á fjórum keppniskvöldum í Uppsveitadeildinni 2019 lá fyrir að Daníel Larsen stóð uppi sem sigurvegari. Hann skilað sér í úrslit í öllum keppnum og var í lokin með jafnasta árangur sem gaf honum efsta sætið.
 
Lið Kílhrauns efst liða
Eftir harða liðakeppni framan af fór að draga í sundur með þeim þegar á leið og Kílhraun seig fram úr öðrum liðum. Það munaði þó ekki miklu á tveimur efstu liðanna í lokin þar sem Kílhraun stóð efst í lokin.
 
Lið Kílhrauns samanstóð af Önnu Kristínu Friðriksdóttur, Daníel Gunnarssyni, Daníel Larsen, Hans Þór Hilmarssyni og Maiju Vaaris. Liðsstjóri var Arnhildur Helgadóttir.
 
frétt/mynd/reidhollin.is