10 Áhugaverðar staðreyndir um sjón hesta

17.04.2019 - 11:07
 Augu hestsins eru um 8 sinnum stærri en augu mannsins, reyndar stærri en flest augu landdýra. Sjón er mjög mikilvægt skynfæri fyrir hestinn. Hestar sjá á allt annan hátt en við og það er mjög gagnlegt að hafa skilning á í hverju munurinn felst. 
 
1. Hestar eru EKKI litblindir
a. Kemur kannski á óvart fyrir suma, en hestar sjá í tvílit. Við mennirnir sjáum í þrílit. Hestar sjá bláa og græna liti á litrófinu en greina ekki rauðan lit. Rannsóknir sýna að þeir sjá rauða liti meira græna eða gulleita. Hlutir í lit sem skera sig úr lit umhverfisins er auðveldast fyrir hestana að sjá. 
 
2. Hestar eru með afar góða nætursjón
a. Augu hesta hafa eiginleika sem gera þeim kleift að sjá mjög vel í myrkri. Í raun sjá þeir jafnvel betur í rökkri en mikilli sól og birtu. Stór augu hestsins gera þeim kleift að gera góðan greinarmun á skuggum í rökkri sem gerir þeim kleift að nema rándýr og annað sem getur leynst í skuggunum. Hins vegar eru hestar lengur að aðlagast ljósaskiptum, t.d. þegar þeir ganga inn í dimma hlöðu úr birtunni úti. 
 
3. Hestar gera ekki góðan greinarmun á litlum smáatriðum í sjónsviðinu
a. Geta hestsins er ekki mjög góð að nema smáatriði í umhverfinu þegar fókusinn er á miðju sjónsviðsins. Hesturinn verður að vera að minnsta kosti 50% nær hlutnum til að sjá smáatriði eins vel og við. 
 
4. Hestar hafa mismunandi næmni fyrir smáatriðum
a. Sumir hestar eru nærsýnni en aðrir og þurfa að vera mun nær en aðrir til að nema smáatriði. 
 
5. Sjón hestsins nær hámarksafköstum þegar hesturinn er um 7 vetra
a. Eftir því sem hesturinn eldist þá eins og hjá okkur missir linsa augans teygjanleika sinn. Fyrir 7 vetra aldur er sjón hestsins ekki fullþroskuð og nær hámarksafköstum um 7 vetra aldurinn og byrjar svo að dala eftir það. 
 
6. Hestar hafa um 350°sjónsvið. 
a. Sjón mannsins er takmörkuð um 45° hvoru megin við nefið. Þar sem augu hestsins eru á hliðum höfuðins hefur hann um 4 sinnum meira sjónsvið en við. 
 
7. Hestar eru með verra dýptarskyn en við mennirnir
a. Sjónsvið hestsins er breitt en dýptarskynið ekki eins gott. Staðsetning augnanna gerir það að verkum að dýptarskynið skerðist á kostnað sjónsviðsins sem gerir það að verkum að hann á aðeins erfiðara með að nema fjarlægðir.
 
8. Hestar eru með tvo blinda punkta í sjónsviðinu
a. Hestar sjá ekki beint fyrri aftan sig og hinn blindi punkturinn er akkúrat beint fyrir framan andlit hestsins. Hann sér þar með ekki grasið sem hann er að bíta, eða nammið sem honum er rétt að munni. Hann notar veiðihárin við munninn til að nema þessa hluti.
 
9. Blindi punkturinn framan við andlit hestsins hefur áhrif á hvernig hestar nálgast hluti
a. Oft getur verið erfitt að muna að hesturinn nálgast hluti á annan hátt þar sem augu okkar eru framan á andlitinu og við sjáum þessa hluti yfirleitt skýrt. Oft reynum við að fá hestinn til að nálgast hluti beint á þá en gleymum að hesturinn sér þá ekki nálægt sér. Tilhneygingin til að hoppa til hliðar er oft til að hreinlega sjá hluti betur en ekki alltaf vinsælt hjá knapa. Að fá hestinn til að nálgast hluti sem hann er hugsanlega smeykur við frá hlið er vænlegri til árangurs.
 
10. Hestar eru með mjög næma jaðarsjón
a. Hestar eru mjög næmir á hreyfingu í jaðri sjónsviðsins sem gerir það að verkum að þeir geti flúið hættur í umhverfinu. Í mönnum tekur það hálfa sekúndu að „vinna úr“ það sem augað sér; lit, stærð, fjarlægð..o.s.frv. þessi úrvinnsla er ekki í boði fyrir hestinn sem flóttadýr, hann bregst strax við áreiti í jaðarsjón, hvort sem hættan er raunveruleg eða ekki. 
 
Heimildir: 10 amazing facts about equine vision/Karin Apfel/2019
 
Þýðing og heimildir