Hósti og hitasótt hrjá hesta

23.04.2019 - 18:58
 Töluvert hefur verið um veikindi hrossa hér á landi á undanförnum vikum og hafa tilfelli verið staðfest á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Vesturlandi. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá MAST, segir að bæði sé hitasótt og smitandi hósti að hrjá hesta. Áratugur er síðan hóstafaraldur meðal hesta gekk síðast yfir hér á landi og því mikið af hrossum sem ekki gengu í gegnum faraldurinn þá.
 
Sigríður segir að hestar þoli veikindin nokkuð vel en mælir með því að hestafólk fylgist sérstaklega vel með hestum sem fá hitasótt og hafi hitamælinn á lofti. „Þau þola þetta reyndar frekar vel. Sérstaklega hóstann, þau verða nú ekki mikið veik af honum en hann getur orðið þrálátur. Síðan eru líka einhver smitefni í gangi sem valda hita og við höfum alltaf aðeins meiri áhyggjur af þeim hrossum og hestamenn þurfa að sjálfsögðu fylgjast vel með þeim, og ef það þróast upp í alvarleg veikindi, að fá til dýralækni alveg strax en á heildina séð er þetta ekki að valda tjóni að öðru leyti en því að menn geta ekki notað sína hesta í einhvern tíma,“ sagði Sigríður í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 
 
Sigríður mælir með því að hestamenn forðist að hafa hestana mikið inni við í smituðu lofti. Þá sé einnig mjög gott að hreinsa hesthúsin vel. „Ef hrossin fá hita, mega hestamenn vera með hitamælinn á lofti. Hann er mjög gott hjálpartæki.“
 
frétt/ruv.is