Telur nýjan hrossasjúkdóm ekki landlægan

05.06.2019 - 09:32
 Hrossin sem greindust með nýjan taugasjúkdóm á Norðvesturlandi virðast hafa fengið sama fóður. Sjúkdómurinn er ekki smitandi, segir Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá MAST.  „Þetta virðist vera tímabundið og verður ekki landlægt í fóðri,“ segir Sigríður.
 
Hún segir að það sé lítið þekkt hvað valdi sjúkdómnum, það sé líklega flókið samspil ýmissa þátta. „Það skapast einhverjar aðstæður, það gæti verið ónæmissvörun hestsins gegn einhverju í fóðrinu. Það hefur verið bent á það sem möguleika. Það hafa ekki fundist neinar þekktar sjúkdómsvaldandi bakteríur eða þekkt eiturefni, sem valda þessum breytingum á taugum.,“ segir Sigríður jafnframt en hún var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2.
 
Þetta er í fyrsta sinn sem sjúkdómurinn greinist á Íslandi, sjö hross hafa verið felld í kjölfarið og eitt fundist dautt. „Það finnst í þessum hestum býsna alvarlegar skemmdir í úttaugum líkamans, sem ganga niður í fæturnar. Þetta lýsir sér sem vöðva slappleiki og alveg upp í lamanir,“ bætir hún við. Sjúkdómurinn er vel þekktur í Skandinavíu, sérstaklega í Noregi.
 
En er þetta ólæknandi? „Reynslan frá Skandinavíu segir okkur að allt að 70% þau jafna sig. Til þess þurfa hrossin að skipta um fóður og vera í algjörri hvíld. En hjá allt að 30% verður þetta strax miklu alvarlega. Og algjör lömunarveiki, og þau leggjast fyrir og þar með eru örlög þeirra ráðin.“ Tuttugu og tvö hross á stóru hrossabýli á Norðvesturlandi eru með greinilega einkenni sjúkdómsins.
 
Sigríður segir að sjúkdómurinn sé árstíðarbundinn. „Hann kemur fyrst og fremst fram seinnihluta vetrar og fram á vorin. Við erum að sigla út úr áhættunni tímalega séð. Ég á ekki von á því að þetta láti mikið á sér kræla núna.“
 
frétt/mynd/ruv.is